27.2.06

Febrúarmyndir!

Ég er búin að setja inn myndir frá febrúar. Hvenær er betra að setja inn myndir en þegar maður á að vera að einbeita sér að prófalestri.
Fór á laugardaginn í magadans til hennar Betu og strax á eftir var pizzupartý heima hjá henni. Einstaklega vel heppnaður dagur í alla staði. Merkilegt nokk þá var þetta partý drengjalaust, og er það held ég í fyrsta skipti sem ég fer í svoleiðis teiti í Stokkhólmsborg. Saman voru komnar einar 16 íslenskar stúlkur sem stóðu sig bara nokkuð vel í magahristing. Á meðan notaði Gummi tækifærið og tapaði íbúðinni í pókerspili með strákunum. Og þó, held að hann hafi nú ekki lagt neitt spennandi undir en hann náði allavegana að prufukeyra fína borðið sitt :)
Svona rétt að lokum þá verður að sjálfsögðu að minnast á að Svensonarnir urðu ólympíumeistara í karlaíshokkí, bara svona ef það hefur farið fram hjá fólki. Það getur allavegana ekki farið fram hjá neinum sem býr í Svíþjóð :)

Skrifað 11:14 e.h. af Sveinbjörgu

24.2.06

Svíar ólympíumeistarar í krullu kvenna!

Þessi titill hljómar eins og hann komi beint af baggalutur.is, en þetta er nú skemmtileg staðreynd. Við Gummi sátum svo límd yfir úrslitunum í gærkvöldi að við gleymdum næstum því að svæfa barnið. Fyrir þá sem ekki þekkja krullu (curling á einhverjum öðru tungumálum) þá er þetta íþrótt sem snýst um að renna sínum "steini" nær miðjumarkinu heldur en andstæðingarnir og til að stjórna honum þá er ísinn sópaður fyrir framan steininn! Áhugi okkar í gær á þessari einkennilegu íþrótt gefur nú kannski helst til kynna erilinn og spennuna sem hefur umvafið okkur undanfarið. Það hefur sem sagt verið freka lítið gert annað á kvöldin síðustu vikurnar en að horfa á imbann og kannsk lært svona stöku sinnum.

Það er nú kannski aðeins meira að gera hjá heimilisfólkinu á daginn. Ragnhildur og pabbi hennar fara saman í öppna förskolan og syngja saman sænsk barnalög. Ég dunda nú bara við það sama og alltaf. Ég fór reyndar í agalega skemmtilega vísindaferð um daginn. Heimsóknin var í st. Jude Medical, sem framleiðir m.a gangráða og fleira sniðugt læknitæknidót. Skemmtilegt að segja frá því að hann Rune Elmqvist, sem fann einmitt upp gangráðinn, vann einu sinni hjá þessu fyrirtæki. Svo er nú líka skemmtilegt að segja frá því að hann var einmitt pabbi hans Håkan Elmqvist, sem kennir kúrsinn sem fór í heimsóknina. Eins og áður þá var þetta ekki eins og íslenskar vísindaferðir, og lauk henni því klukkan 16:00 eftir fínar óáfengar veitingar og helling af fyrirlestrum um hvað það væri frábært að vinna hjá fyrirtækinu.

Mamma mín tók sig til um síðustu helgi og kom í heimsókn. Ragnhildur, sem og aðrir heimilismenn, var mjög ánægð með að fá ömmu sína til sín. Gummi var náttúruleg mest ánægður þar sem að með í för var fína pókerborðið hans :) Við dunduðum við ýmsustu iðjur og var helgin bara því miður of fljót að líða.

Nú er væntanlega best að fara að sofa, þarf víst að vakna í fyrramálið og læra þar sem að næsta vika inniheldur fáein hress lokapróf.

Skrifað 9:43 e.h. af Sveinbjörgu

8.2.06

Ungdómur ekki meir!

Á laugardaginn gerðist sá merkilegi atburður að makinn hætti að vera ungdómur. Hann átti 26 ára afmæli og nýtur því ekki lengur þeirra forréttinda að fá ungdómsafslátt þegar hann ferðast með sænska járnbrautafélaginu, húrra fyrir því. Á afmælisdaginn fór famelían í bæjarferð og sankaði að sér alls kyns nauðsynjavörum fyrir afmælisveislu eins og til dæmis kjöthitamæli, rauðvíni og svo að sjálfsögðu stóru kjötstykki. Guðmundur eldaði svo þessa ljómandi góðu máltíð (ég kemst ekki að í eldhúsinu lengur vegna mikils matargerðaráhuga makans) og svo voru bara allir á heimilinu sofnaðir fyrir 11... sumir vegna aldurs og aðrið vegna hálsbólgu- og veikindaógeðs.
Af skvísunni er svo sem ekkert nýtt að frétta, hún valsar nú um gangana í blokkinni, hangir í flestu sem hægt er að hanga í og dundar sér stundum við að klifra upp í sófa! Ég hef nú varla séð hana neitt í þessari viku þar sem ég er í fyrirlestramaraþoni í Þýskalandi, eða allavegana mjög sunnarlega í Svíþjóð. Ég er að lesa kúrs sem er kenndur í Karolinska institútinu í Huddinge og til að spara nemendunum miklar lestarferðir, þá var ákveðið að pakka öllum kúrsinum í 2 vikur. Í dag var ég í stanslausum fyrirlestri frá 11 til 18 sem var svaka hressandi. Það var nú reyndar verra á mánudaginn. Þá var sami fyrirlesarinn með fyrirlestur frá 9-17. Það sem var kannski verst við það var að ég skildi ekki alveg alltaf nógu vel sænskuna hans Li, sem sagði voða oft L í stað R eins og mörgum kínverjum hættir til! Skemmtilegt að segja frá því að það flæddu kaffibollar uppúr ruslinu þegar tíminn var loksins búinn.
Til að komast til Huddinge þarf ég að taka venjulegu "almenningssamgöngu-lestina". Þessa dagana er kalt og snjór, sem kemur kannski ekki á óvart í febrúar í þessum heimshluta. Það sem kemur mér samt alltaf á óvart, er að Stokkhólmararnir virðast alltaf jafn hissa á að sjá snjó og mínustölur á hitamælinum. Lestin er alltaf sein, og ef hún er bara lítið sein, þá bilar hún einhvers staðar á miðri leið þannig að maður þarf að skipta um lest og verður samt seinn í tíma! Sumar lestirnar eru orðnar svo gamlar að þær bara þola ekki frostið og svo verða alls konar einkennileg lestarteina óhöpp þegar svona hvítt sull leggst yfir allt.
Ekki nóg með hvað þetta lestarkerfi er misheppnað, þá eru til fávitar eins og þeir sem settu brunnlok á teina um daginn sem rústaði vagni sem og teinunum sem hefur ollið enn meiri töfum og leiðindum fyrir utan tugmilljóna tjón!
Óvell, best að hætta að tuða. Ég get þó glaðst yfir því að strætóinn minn og neðanjarðarlestin klikka nú ekki svo oft og svo get ég líka glaðst yfir því að eftir rúma vikur þarf ég ekki að nota þessa ljótu lest meir! Best að fara og koppla af yfir innihaldslausu og yfirborðskenndu sjónvarpsefni, vil ekki ofhlaða hausinn af einhverju fræðandi svo maður meiki nú morgundaginn.

Skrifað 9:01 e.h. af Sveinbjörgu

1.2.06

1500mm gangan

Ragnhildur er í uppfærslum þessa dagana. Hún byrjaði að breyta úr venjulegri skriðtækni í apaskriðtækni. Hún lýsir sér þannig að hún stendur á 4 fótum með rassinn út í loftið og lappirnar beinar og hreyfir sig um eins og lítill apaköttur. Hún komst svo að því að það er auðveldara að standa upp úr þessari stöðu heldur en gömlu skriðstöðunni. Stuttu síðar ákvað hún að gerast svo djörf að taka fyrstu skrefin og gekk alveg einn og hálfan meter. Þetta geriðst núna um helgina við mikinn fögnuð á heimilinu. Ég fæ reyndar mjög sjaldan að sjá þessar hreyfingar hennar, en hún er alltaf að labba fyrir pabba sinn. Henni finnst eitthvað öruggara að skríða bara til mömmu sinnar...
Ég veit nú ekki hvort það var í tilefni af göngu ormsins (hvað heita ormar með lappir?) eða bara vegna þess að það var sunnudagur, en Jón Grétar og Beta fóru í eitthvað lengri göngutúr og löbbuðu með eins og eitt stykki róstbíf heiman frá sér til okkar og elduðu fyrir okkur þennan rosa fína sunnudagsmat. Smjatt smjatt takk fyrir okkur.
Litli ormagrísinn okkar er reynar búinn að vera veikur undanfarið, fékk örugglega kvefdruslu af vinsæla boltanum sem allir voru að naga á leikskólanum. Hún varð voða lítil og aum en er sem betur fer orðin hitalaus og hressari. Við getum nú kannski ekki farið út á snjóþotu strax en hún getur farið í hressan göngutúr í vagninum með pabba sínum til að fagna 10 mánað afmælinu sínu!

Skrifað 9:30 f.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt