30.4.05

Loksins póstur!

Ég ætlaði að skrifa fáeinar línur hér inn síðasta föstudag eftir að daman var vigtuð. Það tókst ekki þar sem að Ragnhildur er svoddan selskapsdýr að hún sefur á nóttunni og heimtar svo að vera með í partýinu á daginn. Hún verður sérstaklega athyglisþurfi akkúrat þegar kvöldmaturinn er tilbúinn og svo þegar ég ætla að skrifa hérna. Þar sem að það hefur verið kvartað undan skiftarleysi, þá er bara að nota "næturna" í þetta (hálf 11 er óvenju seint á þessu heimili núorðið).

Allavegana þá er eftirfaranadi spennandi búiða að gerast síðan síðast:
Pæjan var vigtuð og var búin að þyngjast um 600 grömm á einni viku. Það sést á 2. undirhökunni og bjútíbollukinnunum sem hún er komin með. Við komumst reyndar að því í heimsókninni hjá hjúkrunarkonunni að við erum ekkert skárri heldur en amma mín varðandi kynjatengd störf. Það var ungur drengur inni á stofunni hjá hjúkkunni og við vorum bæði að velta fyrir okkur hvort það væri læknanemi eitthvað að fara að kíkja á hana, en nei þá var þetta hjúkrunarfræðinemi í skítugum strigaskóm!

Á laugardaginn kíktu svo Össi og Gulla í heimsókn með afleggjarana. Ragnhildur var nú sofandi þegar þau komu, en um leið og hún uppgötvaði margmennið í litlu stofunni okkar vaknaði hún og neitaði svo að setja upp fyrirsætusvip þegar Guðrún Sara fékk að halda á henni.
Daman var svo að sjálfsögðu vakandi langt fram á kvöld, og sofnaði ekki fyrr en eftir að Jón&Beta (sem mættu í lambalæriskvöldmat) fóru heim.

Á sunnudaginn gerðist nú ekki mikið á þessu heimili. Gummi fór í sitt bandý og við dúlluðum okkur bara heima. Hann kom nú eitthvað aðeins seint heim, þar sem að hann fór með Val á spítalann. Leikurinn varð víst svo spennandi að Valur var felldur og fékk gleraugun sín hálf inní ennið og þurfti víst eitthvað aðeins að láta sauma sig saman.

Á mánudaginn horfðum við mæðgurnar saman á dagsápurnar eftir göngutúr í góða veðrinu.

Á þriðjudaginn horfðum við mæðgurnar saman á dagsápurnar eftir göngutúr í góða veðrinu. Um kvöldið gerðumst við þjóðleg og fengum okkur grjónagraut með lifrapylsu og buðum Jón&Betu og Ingibjörgu í þessa gúrmei máltíð.

Á miðvikudaginn horfðum við mæðgurnar saman á dagsápurnar eftir göngutúr í góða veðrinu.

Á fimmtudaginn kom Katrín með fullt af bakarísbakkelsi með sér (og skilaði veðmætu ikea skálinni sem hún fékk lánaða um daginn) og endaði svo í mat. Að sjálfsögðu var Ragnhildur vakandi allan daginn og tók þátt í teitinu.

Í gær komu svo Gugga systir og Þórður til Svensonalandsins. Við kíktum örstutt með þeim í bæinn og fórum svo barasta heim og elduðum. Við komum við í ríkinu á leiðinni heim til að kaupa eins og eina hvítvín til að hafa með matnum. Ég ákvað að reyna ekki að fara inn í búðina með barnavagninn. Það er nebbliega valborgarmessa á morgun, og þar af leiðandi valborgarmessuafton í kvöld. Tryggir lesendur þessarar síðu muna kannski eftir hressleikanum sem átti sér stað á þessum degin hjá undirritaðri í fyrra, en þetta er einmitt dagurinn sem flestir sænskir unglingar byrja að drekka. Það var hleypt inn í hollum þannig að við stúlkurnar biðum þrjár fyrir utan á meðan hetjurnar hættu sér inn í kraðakið. Ég gat reyndar alveg treyst því að Gummi myndi velja rétt hvítvín. Það þarf bara að vera í fínni flösku, meira vit á vínum hef ég ekki!

Í dag erum við svo bara búin að hangsa heima, Gummi að læra og við að dúlla okkur. Við gerðum reyndar örlitla tilraun á barninu okkar fyrri partinn. Við ætluðum að stimpla handafar og fótafar í "mitt första år" bókina hennar. Það gekk ekki betur en svo að við fengum klesst fótafar, ekkert handafar og svarta málningu yfir allt barnið, elhúsborðið og skiptiborðsapparatið. Málningin náðist nú öll af og hlaut stúlkan engan varanlegan skaða af. Við munum líklega skilja eftir autt pláss þar sem handafarið á að vera.

Á morgun á svo Ragnhildur 1 mánaðar afmæli. Hún mun fagna með mjólkurþambi og kannski nokkrum A&D dropum. Síðan eigum við örugglega eitthvað eftir að dúllast eitthvað með Guggu móðu, við þurfum að sína henni stórborgina áður en hún fer heim.

Ég ætla að reyna að vera duglegri héðan af að uppfæra þessa síðudruslu svo að ég þurfi ekki að setja inn svona innihaldslaust upptalningablogg. Annars setti ég fleir myndir í vika 4 albúmið hennar, og þar má meðal annar sjá misheppnuðu tilraunina okkar.

Skrifað 10:22 e.h. af Sveinbjörgu

20.4.05

Bara þrjú

Síðustu "gestirnir" okkar fóru heim á mánudaginn. Pabbinn minn kom á föstudaginn og hann og mamma fóru svo saman heim. Það er kannski pínu asnalegt að kalla þau gesti þar sem að ég gat lítið verið gestrisin og það var bara haldið áfram að dekra við nýju fjölskylduna. Það var svoltið skrýtið þegar þau fóru, þá vorum við allt í einu orðin þrjú. Við erum nebblilega búin að hafa ömmur og afa hjá okkur síðan Ragnhildur fæddist. Við erum nú samt alveg að ráða við sjá um dömuna bara tvö, allavegana ennþá :) Það er líka ekki svo mikil fyrirhöfn af þessu ljósi.
Það er svosem ekki mikið annað í fréttum, það er víst ekki mikið sem maður gerir fyrir utan að dáðst að stelpunni. Ég dróg hana reyndar með mér í örstutta strætóferð í gær, ég hljóp inní H&M til að finna einn jakka og svo rétt kíkti ég í apótekið, en dömunni tókst að vakna á meðan og neitaði að fara í strætó fyrr en hún fengi að borða! Sem betur fer þá er spes aðstaða fyrir mjólkandi mæður í svona verslunarmiðstöðvum, er svoleiðis í kringlunni? Við vorum fyrst alveg einar og höfðum það doltið huggulegt, en eftir smá stund fylltist aðstaðan af barnavagnafólki. Svoltið fyndin stemmning að bera búbbana svona innanum fullt af fólki, en það þykir víst bara eðlilegt, og svo sést nú minna í annað brjóstið heldur en ef maður væri bara í bikíní.
Daman þarf víst að drekka núna, setti nýjar myndir inn í vika 3 albúmið.

Skrifað 3:17 e.h. af Sveinbjörgu

14.4.05

Verslunargleði

Nú er hjúkkan frá heilsugæslunni búin að koma heim og skoða dömuna. Hún var nú reyndar mest megnis að dæla bæklingum um ungbarnalíf í foreldrana, og amma Björg var alveg viss um að hún væri ekki að gera neitt annað en að dásama þetta yndislega barn allan tímann sem hún var hérna.... hún vildi allavegana bara skilja það útúr sænskunni hennar :) Við förum svo á morgun á heilsugæsluna og þá verður litla bjútíbollan okkar vigtuð og mæld. Ég er nokkuð viss um að hún sé búin að þyngjast um nokkur grömm í viðbót. Handleggirnir á henni eru orðnir töluvert búkonulegir núna.
Í gær fór svo daman í fyrstu strætóferðina sína. Við kítktum aðeins í smá verslunarleiðangur. Henni virtist líka bara vel við það að fara í búðir, var sofandi alveg allan tímann og rumskaði varla. Ég var orðin töluvert þreytt löngu áður en hún vaknaði, þannig að við komust heim áður en hún gerði neitt vart við sig.
Og svo setti ég inn fáeinar myndir í viðbót sem má finna hér.
Fleira var það ekki, bæ í bili.

Skrifað 1:48 e.h. af Sveinbjörgu

11.4.05

Nefning

Tölvan fær nú ekki mikla athygli á heimilinu þessa dagana. Mér finnst nú skemmtilegra að sinna snúllunni. En vegna fjölmargra fyrirspurna frá heimalandinu, þá setti ég inn nýjar myndir af snúllunni.
Nú er ein amman farin og næsta mætt á svæðið. Áður en amma Ragna fór, þá var nú haldin svaka veisla með afa Hauk og ömmu Björgu, og þá fékk daman hvorki meira né minna en eitt stykki nafn. Hún var nefnd í höfuðið á ömmu sinni og heitir því hinu gullfallega nafni Ragnhildur Guðrún. Við ákváðum að nefna hana bara sem fyrst, bæði vegna þess að við vorum fyrir löngu búin að ákveða stelpunafn á Dúdda og svo líka vegna þess að maður vill ekki að eitthvað Lill nafn festist við mann. Stúlkan virðist ákaflega sátt við nafnið og sýnir það með því að sofa bara eins og engill.
Svona rétt áður en við fáum okkur að borða, þá viljum við þakka fyrir alla pakkana sem við fengum senda til okkar. Eigið gott mánudagskvöld!

Skrifað 7:16 e.h. af Sveinbjörgu

6.4.05

Dagur 5

Í dag fórum við með snúlluna í skoðun. Hún er búin að þyngjast um heil 250 grömm og voru foreldrarnir ótrúlega ánægðir með þennan merkilega árangur. Ég held að við þjáumst af týbísku nýrraforeldrasyndrómi, þ.e.a.s. höfum rosa áhyggjur af því að hún borði ekki nóg, en erum samt stöðugt í því að skipta út kúkableyjunum. Svo var risa nál stungið í hendina á henni og tekin blóðprufa, hún vældi bara smá og hélt svo áfram að drekka, pabba hennar leið eitthvað aðeins verr, honum finnst sprautur ekki hressar og ennþá síður þegar þær eru næstum því jafn stórar og hendurnar á manni!
Annars fer rosalega vel um okkur núna. Við erum búin að hafa ömmu Rögnu hjá okkur sem dekrar þvílíkt við okkur. Hún hafði nú áhyggjur af því að daman ætti bara bláa og bjánalega galla, þannig að hún fyllti kommóðuna af nýjum bleikum fötum.
Ég setti svo inn fáeinar nýjar myndir á síðuna hennar, ég held að þetta sé myndarlegasta módel í heimi :)

Skrifað 7:03 e.h. af Sveinbjörgu

4.4.05

Komin heim!

Ég náði nú varla að loka blogginu á föstudaginn áður en krílið tók uppsögninni alvarlega. Tæpum 12 tímum síðar þá kom þessi yndislegi gullklumpur í heiminn, gurglandi á fósturvatni. Allt gekk ægilega fínt og eftir fæðinguna var okkur trillað yfir á fæðingardeildarhótelið. Þar fengum við að kúra í 3 nætur og hafa það huggulegt. Þeir eru nú svo fyrirhyggjusamir þessir svensonar að maður er sko ekki sendur heim fyrr en það er öruggt að maður fái mjólk í kropinn. Nú er krúslan bara sofandi þannig að ég henti inn fáeinum myndum á einka-síðuna hennar. Takk fyrir góðar kveðjur!

Skrifað 5:49 e.h. af Sveinbjörgu

1.4.05

40 vikur

Þá er bara kominn 1. apríl og grínið má bara byrja! En það er augljóslega ekki byrjað af neinu viti fyrst að ég sit við tölvuna og er að pikka þennnan texta inn. Annars gerðumst við Gummi svo djörf í gær að við fórum í klippingu. Ég endaði óvart með álíka "sítt" hár og hann var með fyrir klippinguna, en það er nú bara hressilegt að breyta pínu til svona stundum.
Ætli ég dundi ekki við það í dag að njóta góða veðursins (aprílgabbið á mbl er að það sé -2° í Stokkhólmi í dag) og sendi bumbunni hugskeyti um að leigusamningurinn sé runninn út.

Skrifað 11:55 f.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt