30.3.05

Lífið í dag

Það mest spennandi sem kom fyrir mig í dag var að sjá rottu fyrir utan fínu blokkina mína þegar ég kom heim úr búðinni. Það er sem sagt ekkert mjög spennandi að gerast í bumbumálum þessa stundina. Fyllingin er enn til staðar og sparkar eins og hún getur, sem er orðið mjög lítið, væntanlega sökum plássleysis. Ég er ennþá að bíða eftir þessari hreiðurgerðarþörf, hún hefur ekki ennþá látið sjá sig. Ég hef allavegana ekki neina þörf fyrir að þrífa ofan af skápum og undan. Ætli Lill sé að bíða eftir því? Já og... æj ég hef barasta ekki neitt meira að segja, ætli ég haldi ekki bara áfram að bíða þolinmóð eins og góðri stúlku sæmir.

Skrifað 10:39 e.h. af Sveinbjörgu

28.3.05

Enginn páskaungi

Því miður kom enginn páskaungi í gær. Ég ætla að fá að efast um að það komi annarípáskum-ungi. Undirbúningsvinnan er þó í fullum gangi þar sem að vöðvinn sem geymir krílið er í stöðugum en óreglulegum æfingum. Skemmtilegt að segja frá því að málshátturinn sem kom útúr laskaða en afar góða páskaegginu okkar í gær á bara ansi vel við : "Þolinmæði þrautir vinnur allar." Ætli við sýnum þá ekki bara þolinmæði næstu dagana og látum þetta kríli koma þegar það vill.
Við fórum í gær í ágætis páskagöngutúr niður að höllinni sem er í bakgarðinum hjá okkur. Það er víst nauðsynlegt að viðra svona óléttar konur reglulega og svo var veðrið bara svo dásamlegt. Þó við séum búin að búa hérna í ár, þá hefur okkur aldrei dottið í hug að labba þangað alla leið og skoða þennan huggulega garð sem er þarna í kring. Ég býst við því að ég og Lill verðum jafnvel bara fastagestir þarna í sumar (það er að segja ef það verður betra veður hérna heldur en síðasta sumar.) Í gærkvöldi var okkur svo hálfpartinn boðið í mat. Ernir og Björn komu í páskamat, sem Ernir sá eiginlega alveg um að elda. Fengum þennan fína lax og tillbehör og ís í eftirrétt. Þetta fyrirkomulag hentaði mér alveg ágætlega, ég fékk eiginlega ekki að gera neitt nema sitja á rassinum og drekka kók. Það er líka svo ágætt að þurfa ekki að fara mikið útúr húsi á kvöldin, get ekki sagt að ég sé hin hressasta þegar byrjar að dimma...
Í dag er nýr dagur, sem byrjaði reyndar fyrir löngu en það er aukaatriði, og hver veit hvað svona nýir dagara geta borið í skauti sér fyrir svona sprækar Þ-laga konur eins og mig ?

Skrifað 2:40 e.h. af Sveinbjörgu

25.3.05

39 vikur

Ég er ekki frá því að það sé bara komið vor. Það var svo brjálæðislega gott veður í gær að ég þurfti næstum því að fara út í vaðstigvélum til að komast í strætó (það voru nebblilega svo stórir snjóbráðnunarpollar á göngustígunum). Í dag er einmitt ekki ósvipað veður, 10 stiga hiti, sól og heiðskýrt, þannig að snjódruslurnar sem eru eftir hljóta að fara að hverfa.
Í gær fór ég hugsanlega í síðustu skoðunina til hennar Theu. Hún býst ekki við að sjá mig aftur fyrr en í eftirskoðuninni í sumar, og spáði því að Lill myndi bara koma á sunnudeginum eftir páska.
Á miðvikudagskvöldið komu Ernir og Svenni (sem býr í köben) í "kvöldkaffi" og spiluðu með okkur hið ofur hressa spil popppunkt. Spilinu lauk alveg á svefnvænum tíma fyrir mig, en drengirnir tóku sig til og spiluðu einhverja einkennilega útgáfu af póker fram undir morgun (sem gæti kannski verið ástæðan fyrir að Gummi komst ekki með mér í skoðun í gær).
Í dag hef ég svo hugsað mér að vera bara ólétt, sauma smá, borða súkkulaði og svo inn á milli ætla ég að gera ekki neitt. Gleðilega páskahelgi!

Skrifað 10:30 f.h. af Sveinbjörgu

22.3.05

Fréttir?

Hér er sko ekki neitt að gerast. Aftur á móti þá virðist bara allt vera að gerast hjá Stebb&Steinu, vil því óska þeim til lukku með fjölgunina.
Ég var aftur á móti dregin í úber gönguferð í gær. Gummi fékk mig með sér í bæinn. Hann þurfti að finna afmælispakka fyrir bróðurinn sem fyllti ár í gær og og koma honum til Vals, sem er einmitt á leið til Íslandsin í dag. Bæjarferðin sjálf var ekkert svo erfið, en að labba alla leið heim til Vals frá lestarstöðinni í snjóbráðnunarhálku og svo aftur til baka var bara töluvert erfitt. Það var meira að seigja svo erfitt að ég þurfti að borða tvö risastór súkkulaðistykki og leggja mig svo eftir átökin!
Svona eru nú merkilegar fréttirnar frá Svensonalandinu í dag, setti eina góða nýja bumbu í albúmið.

Skrifað 10:47 f.h. af Sveinbjörgu

18.3.05

38 vikur

Jamm og jæja, þá er maður bara genginn fullar 38 vikur. Bumban er orðinn ægilega myndarleg, verst að ég get ekki sagt það sama um mig. Mér finnst eiginlega besta að gera bara sem minnst þessa dagana. Helstu verkefnin eru að sofa og borða og bíða. Ég held reyndar að ég geti nú alveg beðið eftir krílinu í nokkra daga í viðbót, er eiginlega að vonast til að vorið komi á undan því, en þetta veður er nú bara alltaf að svíkja mig. Mér finnst komið nóg af snjó í bili!

Í gær fékk ég reyndar afskaplega skemmtilegan pakka að heiman. Hann innihélt m.a. geisladisk sem kallast Baby nap time. Á honum er afslappandi músikk fyrir lítil börn, sem getur einnig haft áhrif á litla heila sem eru að þroskast.... það stendur allavegana á disknum. Spurning hvort að það komi einhver mistískur texti ef ég spila geisladiskinn afturábak? Í pakkanum voru líka afskaplega kjútt föt á litla kroppa, en það sem virðist hafa heillað Gumma mest komst því miður ekki heilt á húfi útúr þessari flugferð. Það komu nokkur risa sár á páskaeggið sem ma&pa sendu okkur, þannig að öll innyflin láku út. Það gerir svo sem ekki mikið til þar sem að það fyrsta sem maður gerir er að brjóta páskaeggið sitt áður en maður borðar það, en það er kannski ekki alveg eins glæsileg fyrir vikið.
Ég hef víst ekki frá neinu fleiru skemmtilegu að segja, góða helgi!

Skrifað 9:29 f.h. af Sveinbjörgu

15.3.05

Mánudagspóstur á þriðjudegi

Ég ákvað í síðustu viku að ég þyrfti nú að vera dugleg að skrifa hérna núna þegar það er svona stutt í krílið. Ég hef enn ekki látið verða af því... Helgin var þó óvenju viðburðarík. Jón og Beta komu í mat á laugardaginn og voru með okkur í mini-júróvisjon partý. Restin af genginu fór víst á próflokapub í skólanum, en þar sem ég er bæði brjálaður júróvisjón-aðdáandi og svoltið ólétt þá langaði mig ekkert á pubbinn. Júróvisjón klikkaði að sjálfsögðu ekki, allir ellismellir sænsks tónlistarlífs voru með í úrslitunum, en það endaði nú víst bara þannig að afskaplega metrósexual sænskur gaur með gellur í þröngum búningum dansandi í kringum sig vann.
Á meðan á þessari ágætu keppni stóð þá ákvað íbýlingurinn minn að troða sér aðeins betur ofaní grindina og því fylgdu örlítið óþægilegir verkir. Ég held að það hafi runnið af Gumma á mettíma af því að hann hélt að hann þyrfti að fara með mig beint á fæðingardeildina. Annars er þessi bumba mín orðin svoltið orkufrek núna. Ég var eiginlega sofnuð á sófanum þegar Jón og Beta fóru rétt fyrir eitt, svaf til hádegis á sunnudeginum, þá vakti Beta mig og dró mig með í bæinn, þegar ég kom heim eftir bæjarferðina þurfti ég að leggja mig, og svo fór bara að sofa rétt uppúr 10.
Já, hér er sko mikill hressleiki í gangi, partý og stanslaust sukk alla daga...

Skrifað 10:02 f.h. af Sveinbjörgu

11.3.05

37. vikur

Ef fólki finnst ekki gaman að lesa bumbufréttir eða bumbutengdar fréttir þá ætti það augljóslega ekki að lesa síðuna mína. Lífið þessa dagana snýst um lítið annað en að bumbast. Við Gummi fórum í gær í skipulagða skoðunarferð um fæðingardeildina. Fengum að sjá stofurnar og helstu aðstöðuna og var sérstaklega bent á eina karlaklósettið á allri deildinni. Það virtist vera voða rólegt að gera þarna akkúrat í gærkvöldi en samkvæmt storkaskýrslunni þá er spáð babyboom í apríl-maí þannig að stærstu áhyggjur mínar eru að öll 14 fæðingaherbergin verði upptekin þegar krílið vill komast út.
Við vorum í 8 manna hópi og einn gaurinn var bara leiðinlegri en allt. Þegar var verið að skoða eitt herbergið og pæla í deyfingargræjunum þar, þá stakk hann nú bara uppá því að rota kellinguna. Hann var með einhverjar fleiri athugasemdir í þessum dúr og svo þegar við stóðum og vorum að hlusta á einhverjar útskýringar, þá var okkur boðið að setjast og að sjálfsögðu settist hann fyrstur (og það voru bara 2 stólar). Ég held að ég sé nú það heppinn að kallinn minn er töluvert tillitsamari og hressari heldur en þetta.
Ég hef líka verið að velta fyrir mér hvort að það séu til ónæs ljósmæður í dag. Hef ennþá bara hitt ofur skilningsríkar og yndælar svoleiðis konur. Hef nú reyndar hitt á mis smekklegar ljósmæður, en það skiptir held ég minnstu máli í þeirra vinnu. Mér fannst til dæmis konan sem tók á móti okkur síðasta mánudag alveg æði. Hún var um sextugt, í röndóttum lummulegum hjúkkukjól með skærbleikt gaddabelti vafið um sig miðja. Alger pæja!

Í dag ætla ég bara að njóta þess að það sé kominn flöskudagur og versla mér eins og eina kókflösku! Svo held ég að ég haldi bara áfram að æfa mig í að kappmella, veit ekki alveg hvort sérfræðingarnir myndu samþykkja saumaskapinn hjá mér....

Skrifað 1:23 e.h. af Sveinbjörgu

8.3.05

Prófið búið?

Þá er prófið bara búið, en ekki ég... eftir skráningarklikkið í þetta blessaða próf þá endaði ég bara á því að mæta ekki neitt. Í staðinn var ég uppá spítala sökum einhvers konar móðursýki. Litli íbýlingurinn minn var búinn að vera svo aumingjalegur og óeðlilega rólegur alla helgina þannig að ég hringdi bara í ljósuna mína sem sendi mig bara uppá fæðingadeild í tékk. Þar var tekin fósturkúrva og aðeins potað í krílið og allt leit afskaplega fínt út. Skoðunin dróst á langinn þannig að ég missti af prófinu... en prófið kemur víst aftur í ágúst þannig að ég og Lill getum dundað okkur við að læra seinni part sumars, við höfum sko nægan tíma þá.
Ég er reyndar á því núna að þetta kríli sé hálfgerður prakkari. Eftir að hafa legið í hálfgerðu hreyfingarleysi í næstum 3 daga þá ákvað það, um leið og hætt var að hleypa inn í prófið, að sparka eins og það var vant, ef ekki jafnvel fastar og hnitmiðaðar í rifbeinin á mér. Verð að segja að það er nú bara pínu notalegt að vita af því að allt er í lagi þarna inni þó að það sé ekki verið að láta vita af sér á notalegan hátt.

Í dag er ég sem sagt í fríi. Ég ætla sko útúr húsi, og hvað gerir sænsk húsmóðir þá? Hún fer að sjálfsögðu í IKEA. Það þarf að redda ýmsustu hlutum fyrir útkomuna og ég þarf að hafa eitthvað að gera :) Gummi verður bara skilinn eftir heima í prófalestri, hann er víst ekki búinn alveg strax, vinsamlegast hugsið fallega til hans á meðan.

Skrifað 9:29 f.h. af Sveinbjörgu

5.3.05

Vegna ótal margra fyrirspurna...

...þá ákvað ég að láta fáeinar bumbumyndir af mér og Lill á alheimsnetið. Það eru reyndar afskaplega fáar bumbumyndir inná minni tölvu, þær eru flestar inná tölvunni hjá Gumma en ég nennti ekki að ná í þær. Það er einn örlítill galli á þessu annars rosalega fína myndasystemi sem Gummi bjó til. Tölvan sem geymir myndirnar er inni í geymslu hjá okkur, geymslan liggur uppvið svefnherbergið og eftir að nýjum hörðum disk var bætt í þessa elsku þá hljómar hún svoltið eins og lítil þota. Þar af leiðandi er ekki kveikt á tölvunni á nóttunni og oft ekkert meiri part af degi þar sem við munum ekkert eftir að kveikja á henni ef við þurfum ekki að nota hana. Annars þá eru þessar fáu breiðukonumyndir komnar inn og hægt að skoða þær (að minnsta kosti núna) ef þið ýtið á hlekkinn hér til hægri.

Skrifað 11:02 f.h. af Sveinbjörgu

3.3.05

Gaman saman

Ég fæ að skrifa próf á mánudaginn. Ég var nú reyndar ekkert sérstaklega stressuð yfir þessu klúðri mínu þar sem að ég hefði alltaf getað tekið næsta upptektarpróf (eða þarnæsta þar sem næsta er 31. mars). Allavegana þá er ég sem sagt í formlegu upplestrarfríi núna, sem mun að öllum líkindum einkennast af óstjórnlegum lærdómsáhuga og áti. Það sem mér finnst nú samt skemmtilegast við þetta upplestrarfrí er að ég fæ að hafa kallinn heima hjá mér á meðan, hann er jú víst í samskonar "fríi". Gummi er búinn að vera óvenjulega mikið í skólanum undanfarið vegna verkefnavesenis, en það er nú eiginlega búið núna þannig að ég fæ að hafann bara alveg ein. Til að sýna ánægju mína þá eldaði ég rosa máltíð fyrir drenginn, fiskibollur úr dós (sem eru 56% fiskur!!!) með brúnni lauksósu.
Úr ofanrituðum texta má greinilega lesa hversu spennandi lífið er hjá undirritaðri þessa dagana, hver dagur pakkaður af ótrúlegum uppátækjum..... Ég mun líklega gera mér dagamun eftir prófið, þangað til er kannski bara best að læra.

Skrifað 7:38 e.h. af Sveinbjörgu

1.3.05

Sveinbjörg viðutan! Kafli 2

Ég held ég sé að setja met í gáfumennsku þessa dagana. Ég er bara í einum kúrs núna og er prófið í honum núna næsta mánudag. Undanfarna daga er ég alveg búina vera óvenju dugleg að læra, enda hef ég nægan tíma fyrir þetta eina fag. En hvað gerir svo mannvitsbrekkan, ég gleymi að skrá mig í prófið. Björn er búin að spurja mig í hverjum fyrirlestri undanfarnar 2 vikurnar hvort ég væri búin að skrá mig en allt kom fyrir ekki. Svo þegar hann spurði mig í fyrirlestrinum í dag, sem var einmitt síðasti tíminn, þá ákvað ég að krota stórum ljótum stöfum á hendina á mér svo að ég myndi nú muna eftir þessu. Og svo loksins þegar ég ætlaði að skrá mig í prófið á internetinu, þá komst ég að því að fresturinn rann út í gær! Ég kenni alfarið ástandi mínu um þessa ótrúlegu gleymsku og sendi að sjálfsögðu afskaplega óléttan póst á hann Krille (kennarann) og vona að hann sé ekkert mjög stressaður á svona skráningarfyrirkomulag. Ef það kemur svo í ljós að ég megi ekki taka þetta próf, þá er ég bara komin í páskafrí núna og mæti næst í skólann í ágúst til að taka upptektarpróf í staðinn fyrir þetta.....

Skrifað 8:27 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt