24.2.05

Sveinbjörg viðutan!

Í morgun vaknaði ég við hressilegt vekjaraklukkubíb, fór í sturtu, borðaði morgunmat, las blaðið og burstaði svo tennurnar. Ekkert merkilegt við það, nema svo þegar ég var komin í skóna og var á leiðinni út, þá ákvað ég nú að tékka hvort ég ætti ekki alveg örugglega tíma hjá ljósunni minni klukkan 10:30. Hvað kom í ljós, tíminn var klukkan 9:00 og klukkan var orðin rúmlega 10... ég fékk nú alveg nýjan tíma vegna forfalla um hádegi, og var líka alveg fyrirgefið að vera ekki alveg með alla heilsastarfsemi á fullu. Mér skildist nú á henni Theu að það væru bara eiginlega allar óléttar konur sem gleyma einhvern tímann að mæta í skoðun eða mæta jafnvel bara á vitlausum degi. Ég verð nú að segja að þetta er töluvert skárra óléttueinkenni heldur en ógleði og grindargliðnun, þannig að ég get ekki kvartað (meira spurning um hvað Gumma finnst?). Alla vegana þá kom nú bara í ljós að bebisen virðist stækka alveg eðlilega og er ennþá með þennan fína stelpuhjartslátt (sama hvort það sé marktækt eða ekki).

Fleiri fréttir, við fórum í rosa flotta útskriftarveislu hjá Reyni frænda síðasta þriðjudag, eða ætti maður kannski að skrifa hjá Doktor Reyni. Við komust reyndar ekki á vörnina sem var fyrr um daginn. Það gerir kannski ekki svo mikið til þar sem að við hefðum hvort eð er ekki skilið svo mikið í diffurjöfnum um blöndun tveggja fasa í tvívídd. En veislan var mjög fín, kalt ítalskt hlaðborð og svo tíramísú í eftirrétt. Þetta var víst mjög ósænsk doktorsútskriftarveisla, þar sem að enginn gíróseðill fylgdi með boðskortinu og mjög vel var veitt af öllum veitingum.

Núna er ég svo bara komin í helgarfrí, hef hugsað mér að vera mest megnis heima hjá mér að læra, lummast og halda svo eitthvað áfram að stækka. Góða helgi!

Skrifað 3:49 e.h. af Sveinbjörgu

20.2.05

Breikkun

Það væri nú skemmtilegt að geta skrifað einhverjar fréttir, en það er bara ekki neitt að frétta. En engar fréttir eru kannski bara góðar fréttir, alla vegana í svona barnaframleiðslu. Það væri nú líka skemmtilegt að segja frá því að kallinn væri að dekra breikkandi konuna sína í tilefni af konudeginum, en nei, hann er bara í bandý núna með strákunum og ég er að fara að þvo óhreinu nærbuxurnar hans á eftir. Honum finnst konudagurinn barasta asnalegur, dagurinn þar sem manni er sagt að vera rómó. Þetta hljómar reyndar svoltið eins og ég sé voða bitur, ég er bara í einhvers konar myglukasti og fyndist örugglega rosa gaman að lenda í einhverri óvæntri uppákomu sem er meira spennandi og huggulegri en reikniverkefnið sem ég á að vera að gera og þvottahúsið sem ég á pantað seinna í dag.
Ég var að reyna að fá hann til að lesa bloggið hennar Oddnýjar í morgun, fannst svo ágætar ábendingar þar. Hann gleymdi víst greininum í urlinu, þannig að hann endaði á að lesa bara um niðurskurð fyrir vaxtarræktunarkeppni....
Óvell, ætli ég fari þá ekki bara og borði súkkulaðirúsinurnar sem hann fékk sendar frá Íslandi og dundi svo við að halda áfram að breikka. Gleðilegan konudag!

Skrifað 12:28 e.h. af Sveinbjörgu

17.2.05

Mánuður hinna endalausu námskeiða

Við Guðmundur virðumst gera lítið annað í þessum ágæta febrúarmánuði en að fara á námskeið sem tengjast komu Lill. Við vorum sem sagt núna að koma heim af fyrirlestri um fæðinguna. Mér fannst reyndar mjög fyndið að vera í stórum fyrirlestrarsal sem var fullur af vel bumbóttum konum. Fyrri helmingurinn af fyrirlestrinum var mjög áhugaverður. Þá var fjallað um fæðingardeildina og hvernig allt gengur fyrir sig þarna og fleira í þeim dúr. Svo fór konan að tala um fæðingarstellingar og dróg upp dúkku í "nýfæddrabarna"-stærð og var að draga það í gegnum grindarbotn. Við þær aðfarir hennar ákvað ég bara að hætta við að fæða þetta barn! Ég hef nú oft heyrt að fæðing sé ekki alveg verkjalaus athöfn, en hef hingað til bara ákveðið að velta þessu ekkert of mikið fyrir mér og vera ekkert að stressa mig að óþörfu. En nei, svo ákveða þessir fyrirhyggjusömu Svensonar að senda mann á fyrirlestur til að hræða mann. Í lokin talaði svo rosalega skrýtin kona sem virtist vera á einhvers konar lyfjum. Hún er ljósmóðir á BB-hótelinu og hefur sérhæft sig í brjóstagjafarhjálp. Hún var nú aðallega að spjalla um þetta ágæta hótel, sem allar konur sem hafa átt vandræðalausa fæðingu eru sendar á. Hér er maður sko ekki sendur heim samdægurs, heldur fáum við einkasvítu í 2 daga á hóteli sem er rekið af spítalanum. Það hljómar nú bara ágætlega.
Það er nú annars orðið ansi stutt í að þessari meðgöngu ljúki. Ég fékk hálfgert panikkast í nótt þegar ég fattaði að það eru bara 4 vikur þangað til krílið telst fullbakað! Við erum reyndar búin að kaupa rúm og skiptiborð og verðum vonandi búin að útvega helstu nauðsynjar áður en þetta skellur á!
Fleira var það ekki í bili, ætli ég fari ekki að baka pönnsur í tilefni af því að ég er búin að endurheimta pönnukökubakstursgetuna og líka af því að ég er alltaf svöng núna eftir að skottið skorðaði sig og minnkaði þrýstinginn á magann. Jú og svo líka af því að Gummi er að fara próf í næstu viku og ég vorkenni honum alveg helling.
Bæ í bili!

Skrifað 8:09 e.h. af Sveinbjörgu

12.2.05

Rassaköst

Síðasta fimmtudag þá fórum við Lill í skoðun. Þá kom í ljós að litla skottið snýr núna rassalingnum beint fram og útí loftið. Við vorum einmitt búin að velta fyrir okkur hvaða líkamspartur þetta væri sem væri að troðast þarna fremst ofaná bumbunni, og þá kemur bara í ljós að Lill hefur bara verið að dilla rassinum framaní okkur! Það kom einnig í ljós að "hún" (Thea talar alltaf um hana) sé búin að skorða sig. Það er mjög póstitívt að því leyti að barnið er þá allavegana á réttri leið... negatíva hliðin er sú að í staðinn fyrir að fara 2 sinnum á nóttu á klóið, þá fer ég 5-6 sinnum! Svo ef ég geng alveg 2 vikur framyfir, þá verður Lill að öllum líkindum með einhverskonar keiluhaus til að byrja með :) en það lagast víst vonandi.

Í dag ætlum við svo að fara að heimsækja smáríkið Ikea. Þið getið örugglega ekki trúað því hvað Gummi er spenntur... við ætlum að leigja okkur ægilega fínan tojótu steisjonbíl til að ferja okkur fram og okkur og dótið til baka. Það kostar svipaðan pening að leigja svona bíl í einn dag, eins og að láta senda dótið sitt heim frá Ikea, þannig að við getum bara verið að rúnta milli verslana í Stokkhólmi í allan dag.
Í kvöld ætlum við svo að skrópa á þorrablóti íslendingafélagsins. Í staðinn ætlum við til Jóns og Betu á júróblót. Fyrsta undankeppni (af 5) fyrir slagara-evrópumótið (júróvisjón) er einmitt í kvöld og hafa þau lofað að bjóða uppá harðfisk með herlegheitunum. Við ætlum sko að vera grand á því og mæta á bíl!

Skrifað 8:58 f.h. af Sveinbjörgu

9.2.05

Onsdag

Í dag er miðvikudagur. Þá er onsdagspub. Fór ég ? Nei, augljóslega ekki. Ég var bara heima og horfði á gelgjuþátt í sjónvarpinu og skemmti mér ágætlega. Það er hálf einkennilegt, miðað við hvað ég skrifa sjaldan orðið inná þessa síður, hvað ég virðist skrifa oft á miðvikudögum. Og þá einmitt á miðvikudögunum sem Gummi ákveður að fara á barinn með strákunum... Þetta kemur nú ekkert sérstaklega vel út fyrir strákinn, en þetta er nú í fyrsta skipti sem hann fer á þessu ári, þannig að þetta getur ekki talist mjög mikið eða slæmt. Hann varð nú eiginlega að fara með Erni núna, þar sem að Ernir var að fara í fyrsta skipti á onsdagspub. Ernir og Bönga bjuggu svo langt langt í burtu áður en að þau ákváðu að gerast nýju grannarnir okkar, þannig að þau hafa ekki lagt í svona langt ferðalag áður fyrir nokkra öllara.
Annars vorum við í fínasta kaffiboði hjá þeim áður en drengirnir lögðu i hann, fengum rosa góða klatta með bláberjasultu og rjóma og heitt súkkulaði með, namm namm namm. Þar sem Ernir mætti örlítið of seint í eigið kaffiboð og þar sem að við vorum doltið lengi í kaffi, þá endaði þetta nú eiginlega sem kvöldmaturinn okkar. Það væri þá kannski gáfulegt að gefa Lill aðeins meira að borða áður en ég fer að sofa, ætla samt fyrst að hringja í ástmanninn og minna hann á að síðasti strætó fer eftir fáeinar mínútur. Góða nótt gott fólk!

Skrifað 11:14 e.h. af Sveinbjörgu

4.2.05

Afmæli

Hann á afmæli í dag.... o.s.frv. Hef ekki alveg söngrödd sem ætti að opinbera á alheimsnetinu. Annars þá vildi ég bara óska Gumma sæta til hamingju með afmælið, ekki ómerkilegt það að vera orðinn kvartaldar gamall. Hann er reyndar bara farinn í skólann að vinna að verkefni, en fékk nú nýbakaða súkkulaðiköku í morgunmat þannig að hann getur nú ekki verið neitt mjög skúffaður. Fleira var það ekki í bili, ég ætla að fara að snyrta húsið okkar aðeins fyrir kvöldið.

Skrifað 11:00 f.h. af Sveinbjörgu

3.2.05

Mitträff

Nú erum við Gummi búin að læra allt um umönnun lítilla barn, alla vegana það sem hægt er að kenna manni á einum og hálfum tíma. Við vorum sem sagt á "nýrra foreldra" fundi uppá spítala áðan og fengum ýmsustu upplýsingar um hvernig á að höndla litla gullklumpa og einnig hvaða áhrif svona lítil kríli geta haft á fólk. Þær voru nú mis hressar ljósmæðurnar, ein var að farast úr stessi yfir að þurfa að tala fyrir framan 12 manns um brjóstagjöf á meðan aðrar gátu barasta ekki hætt að blaðra um hvernig á að viðhalda ástinni eftir að barn er komið til sögunnar. Þetta var nú bara ágætasta fræðsla, bara spurning hvort við munum eitthvað af þessu eftir 6-10 vikur...
Annars er nú allt fínt héðan að frétta, ég endurheimti manninn minn í gær sem var með eindæmum ágætt, þrammaði um hálfan Stokkhólm á þriðjudag í leit að afmælisgjöf fyrir afmælisbarn morgundagsins og fór svo eftir það í mat til nýju nágrannanna. Á morgun ætla svo Ernir og Ingibjörg að halda innfluttningspartý, sem verður jafnvel kannski með einhverju örlitlu afmælisívafi fyrir afmælisdrenginn Guðmund.
Fleira var það ekki í bili, eigið góða helgi!

Skrifað 6:27 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt