29.1.05

Ein heima

Núna erum við Lill bara alein í kotinu. Gummi skrapp heim til Íslands í dag og kemur ekki aftur fyrr en á miðvikudaginn. Ég hugsa að ég ráði nú alveg við örlitla einveru þó að ég vilji fá drenginn heim aftur sem fyrst. Það er nú samt svoltið skrýtið að vera ein hérna, hef ekki lent í því áður lengur en í fáeina klukkutíma. Það vill nú reyndar svo skemmtilega til að Ernir og Ingibjörg voru að flytja í hverfið í gær, þannig að það er nú ekki svo langt að fara ef mér skildi fara að leiðast einveran mjög mikið. Við Gummi fórum einmitt til þeirra í gær að hjálpa til við innfluttninginn. Það var nú svo sem ekki mikil hjálp í mér, ég gat lyft litlu léttu kössunum og tekið pappírinn utanaf leirtauinu. Annars var ég bara þarna til að veita móralskan stuðning.... Mjög skondið samt að koma inn í nýju íbúðina þeirra þegar hún var alveg tóm, hún er nebblilega nákvæmlega eins og okkar. Fannst eiginlega eins og ég væri heima hjá mér, bara búið að taka allt dótið út.
Allavegana þá er planið á þessu heimili að gera bara sem minnst næstu daga. Ætla að hafa tærnar upp í loft milli þess sem ég ætla að þykjast vera að læra. Ég er búin að lofa Guðmundi því að vera ekki alein á ferð seint á kvöldin í miðbæ Stokkhólms, þannig að ég mun líklegast hafa það huggó með sjónvarpinu og risa nammidallinum sem ég fjárfesti í, allavegana í kvöld....

Skrifað 5:10 e.h. af Sveinbjörgu

25.1.05

Ný byrjun

Þá sé það ákveðið. Ég er bara búin að segja mig úr öllum þessum illa stundatöfluðu kúrsum og ætla bara að lesa einn kúrs sem inniheldur mikið af táknum, fáar tölur og engin hættuleg efni fyrir Lill. Ég verð því frá og með 7. mars heimavinnandi húsmóðir í risavillunni okkar Gumma. Þetta var bara sennilega besta ákvörðun í heimi, apríl önnin er búin að naga mig svo mikið og ég búin að hafa áhyggjur af því að ég væri að fara að vanrækja þennan nýja einstakling. Í staðinn ætla ég bara að vanrækja skólann og halda áfram næsta haust eða jafnvel næsta vor, allt of snemmt að ákveða svona hluti strax.
Aðrar fréttir héðan eru svosem ekki eins dramatískar og merkilegar og ofanrituð. Fengum Jón og Betu og Kidda og Jón (heimsækjandi bróður hans Kidda) í mat á föstudagskvöldið og svo kíktu Björn og Valur við. Þetta var hið huggulegasta kveld alveg þangað til þreytta konan ég varð rosalega þreytt. Laugardagskvöldið var ekki eins spennandi. Ég sofnaði á sófanum rétt um 9. Rétt uppúr miðnætti vakti Gummi mig, ég tannburstaði mig og svaf svo til að verða 11 á sunnudagsmorgninum. Hugsanlega var þarna slegið nýtt met í svefni á þessu heimili, en eins og áður hefur komið fram þá er þessi barnaframleiðsla víst svona ægilega orkufrek.

Nóg í bili, ég ætla að fara að æfa mig í húsmóðurhlutverkinu og baka eins og fáeinar múffins til að hafa með mér í skólann á eftir. Heyrumst!

Skrifað 11:03 f.h. af Sveinbjörgu

21.1.05

Einkennileg byrjun

Þessi önn virðist ekki ætla að byrja neitt ofur frábærlega. Í fyrsta lagi þá rekast allir fyrirlestrarnir sem ég sæki saman. Mér finnst það svona pent óþægilegt, ég var alveg búin að sætta mig við að missa af 2 fyrirlestrum í öðru faginu og 2 í hinu, en svo bættist 3 fagið við og tímarnir þar gera ekkert nema að klessa á allt.
Í öðru lagi þá virðist ég ekki gera annað en fara í fýluferðir á skrifstofu stærðfræðideildarinnar. Mig vantar nokkur heftir fyrir einn af kúrsunum og þau fást einmitt á þessari áðurnefndu skrifstofu sem virðist alltaf vera lokuð þegar mig langar að heimsækja hana. Ég er núna búin að kynna mér nákvæmlega opnunartímana þannig að ég gæti kannski orðið mér úti um heftin áður en önninni lýkur.
Síðasta skemmtilega atriðið sem ég hafði hugsð mér að nefna er að ég fékk póst frá skorarformanninum í gær. Þetta er alveg afskaplega fínn gaur sem vill alveg allt fyrir sitt fólk gera (annað en ónefndur óglaður skorarformaður heima). Hann byrjaði hálfpartinn á að óska mér til lukku með íbýlinginn, en svo benti hann mér á það að ólétt fólk má eiginlega ekki labba í hreinum herbergjum (sem er partur af rannóknaapparatinu). Það fannst mér ansi leiðinlegar fréttir þar sem að verkefnið sem átti að gera í hreina herberginu var nú eitt af því sem ég hlakkaði mest til að gera á þessari önn. Ég má reyndar eiginlega ráða því samt sjálf hvort ég ætli að vera með og fæ þá ekki að fikta eins mikið og hinir í einhverjum spennó efnum. Ég þarf víst að kynna mér betur hætturnar sem leynast á svona stöðum fyrir svona litla íbúa áður en ég ákveð hvað ég geri.

Þá er leiðinda tuðið búið hjá mér í dag, ég held að ég sé nú komin í skárra skap eftir að hafa komist inn úr kuldanum eftir fýluferð dagsins og fengið pínu hlýtt kaffi. Við Gummi ætlum reyndar að skella okkur upp í hinn skólann í dag og rembast við að læra eitthvað, hugsa að helgin fari bara í það að klára verkefni upp í skóla og hafa það huggulegt inn á milli.



Skrifað 10:38 f.h. af Sveinbjörgu

17.1.05

Skólinn byrjar alltaf aftur!

Ætli skólinn sé þá ekki bara byrjaður einu sinni enn. Held að þetta verði nú bara ansi hreint ágæt önn, allavegana fyrri helmingurinn. Mér fannst nú reyndar svoltið erfitt að fara í skólann í morgun. Nei, ég átti ekki erfitt með að vakna og kennarinn talar mjög þægilega sænsku. Það sem mér þótti erfiðast var að labba upp stigann úr lestinni. Og svo þegar ég var loksins komin upp þessar 20 tröppur þá átti ég eftir að labba upp erfiðustu brekku í heimi í heilar 10 mínútur til að komast í stofuna sem ég átti að fara í. Ég hef farið upp þessa blessuðu "brekku" oft og yfirleitt ekki tekið eftir því að þetta væri meira en smávægilegur halli, en af einhverjum einkennilegum ástæðum var ég ekki alveg að höndla þetta í morgun...
Eftir skóla vorum við Guðmundur búin að ákveða að hittast í bænum. Við misskildum bæði þessa bæjarferð. Ég hélt að hann ætlaði að skipta skónum sem ég gaf honum í jólagjöf en þegar hann mætti í bæinn var hann skólaus af því að hann hélt að við ætluðum að fara að kaupa í matinn. Í staðinn enduðum við á því að kaupa peysu á drenginn og bumbukonuspenastatív fyrir bumbukonuna. Jú og svo enduðum við reyndar í risabúðinni og keyptum hakk og kjúkling sem gæti fætt 15 eþjópískar fjölskyldur í hálft ár, en Lill er víst að fitna þessa dagana þannig að þetta klárast örugglega áður en blöðrurnar eftir búðarpokaburðinn áðan hverfa.
Fleira var það ekki í bili, eigið ágæta viku.

Skrifað 4:02 e.h. af Sveinbjörgu

12.1.05

Jólafrí ekki meir

Þá erum við bara komin aftur í litlu fínu íbúðina okkar í svensonalandinu. Hún hafði bara ekkert breyst. Veðrið hafði ekki heldur breyst neitt og kaupfélagið okkar var eins (nema það er ekki hægt að kaupa jólaklósettpappír lengur). Við erum búin að vera í svo miklu dekri og huggulegheitum heima að það er nú bara hálf erfitt að vera aftur komin heim til útlandsins, þó það verði nú kannski bara ágætt að byrja á einhverjum skólarútínum í næstu viku.
Fréttir héðan eru ekki fleiri í bili, við verðum í því næstu daga að klára einhver verkefni og láta kannski tékka á íbýlningnum og svo bara skóli á mánudag. Ætli verkefni seinni partsins verði ekki bara að taka upp úr töskum og sofna svo kannski bara tímanlega.
Bæ í bili.


Skrifað 4:27 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt