15.12.04

Jólafrí

Nú mega allir sem eru ennþá í prófum hata mig í fáeina daga, af því að ég er búin! Fór nú reyndar ekki nema í eitt próf, en það er engu að síður búið og ætla ég ekki að hugsa neitt um skólann fyrr en á næsta ári. Ótrúlegt en satt þá var þessum prófalokum ekki fagnað með hreingerningum. Við ákváðum bara að hafa það kósi hér og fagna prófum með pizzu (ég held að við séum eina fólkið sem borðar inná þessari pizzeríu) og svo náðum við okku bara í vídjó. Það er nú svoltið ágætt að fá allavegna einn dag til að anda áður en við fljúgum heim, þá getum við nú náð að pakka og þrífa og jólagjafaversla og skroppið til barnemorskunnar minnar og það allt í rólegheitum bara. Mér tókst reynda í tilefni af próflokum að ná mér í pest og er þess vegna að spá í að mygla heima hjá mér á morgu. Það er nú kannski bara ágætis hugmynd í ljósi þess að það virðast vera eintómir sprengjusjúklingar í miðbænum þessa dagana.
Fleira var það ekki í bili, ekki tapa ykkur í jólagleðinni!

Skrifað 11:41 e.h. af Sveinbjörgu

13.12.04

Prófleti

Ótrúlegt en satt þá vaknaði Gummi bara á undan mér í morgun. Hann er reyndar í prófi núna, allir að hugsa fallega til hans. Ég bara nennti ekki að vakna með honum og var eiginlega að drösla mér framúr núna. Ég veit ekki hvort þetta of langa upplestrarfrí sé að gera mig að svona miklum letipúka og svefnpurku eða hvort það sé þessi barnaframleiðsla sem er í gangi hjá mér allan sólahringinn sem gæti verið svoltið orkufrek.
Fleira er bara ekki í fréttum. Í gær vorum við heima að læra, á laugardaginn líka og föstudaginn og fimmtudaginn og miðvikudaginn. En nú er þetta bara alveg að vera búið og orði stutt í heimkomu. Jú annars, við fundum nýtt vinnuheiti á bumbuna, íbýlingurinn hefur hlotið heitið Lill. Það er alveg ótrúlega erfitt að breyta svona um nafn, þannig að það er kannski bara ágætt að festa ekki eitthvað asnó nafn á saklaust barnið. Ef það kæmi strákur þá myndi hann alltaf vera kallaður Dúddi, sem er ekki fínt nafn, og svo verður held ég voða erfitt að svissa um kyn ef að við köllum það Dúdda í 3 mánuði og svo ploppar bara út lítil flikka.
Nóg bull í bili, ég ætla að gefa Lill að borða og þykjast svo læra allt um frábæra reksturinn á h&m.
Bæ í bili.

Skrifað 9:35 f.h. af Sveinbjörgu

7.12.04

Upplestrarfrí

Þá erum við bara komin í upplestrarfrí. Vika og einn dagur í eina prófið mitt og 6 dagar í Gummapróf. Það má því fastlega gera ráð fyrir að hér verði gert lítið annað en að lesa, sofa og éta á þessu heimili næstu 7 dagana.
Síðasta laugardag buðum við Birni, Val, Kidda og Sigurgeiri í lambalærið sem pabbi og mamma fluttu með sé hingað. Það bragðaðist sko aldeilis ekki illa. Samt svoltið fyndið hvað okkur finnst lambakjötið okkar gott. Þegar ég hitti ljósuna mína síðast þá var einmitt lambalærið (ásamt mömmu og pabba) að lenda í Stokkhólmi þannig að ég sagð henni að sjálfsögðu frá því að þau væru að koma í heimsókn og með þeim þessi ágæta löpp. Eina sem hún sagði var: "þegar maður er stúdent þá borðar maður hvað sem er" . Hún er greinilega ekki jafn hrifin af þessu kjöti eins og við :) Eftir matinn fórum við svo í ágætis afmælispartý til Ragga og Heiðrúnar.
Á sunnudeginum ákvað ég að kíkja á Betu í nýja húsnæðinu. Það er töluvert styttra að heimsækja þau á nýja staðinn, bara rétt rúmlega einn strætó. Ég endaði þar í bakstri, kvöldmat og svo hinu fínasta aðventukaffi með randalínu, heitu súkkulaði og íslenskum jólalögum.
Meira var það ekki í bili, kem kannski með nákvæmar lýsingar innihaldsríkum lærdómsdögum mínum hér einhvern tímann við tækifæri, kannski ekki.....bæ í bili.

Skrifað 8:04 e.h. af Sveinbjörgu

3.12.04

Skílríkjagleðin

Á miðvikudaginn síðastliðinn ákváðum við að gera tilraun númer 2 til að eignast sænsk skilríki. Ég veit ekki alveg til hvers þar sem að við höfum búið hér í rúmlega ár og aldrei þurft neitt sérstaklega á þeim að halda. Við ákváðum samt að redda þessu bara svona til öryggis. Til að fá id-kort í þessu ágæta landi þá þarf maður annað hvort að eiga eitt slíkt fyrir eða fá einhvern sem á svona kort með sér til að votta að að maður sé nú ekki að ljúga. Okkur þótti nú Björn tilvalið fórnarlamb og drógum hann með okkur í svensk kassaservice, hvar við sóttum um kortin.
Annað sem þarf að gera áður en maður eignast svona forláta kort er að fá pappír með upplýsingum um mann frá sænska skattaverkinu. Það höfuðum við gert en þegar við komum í kassann fyrst ( í síðustu viku) þá kom í ljós að Björn þurfti svona pappír líka. Til að fá þennan pappír þarf ekki einu sinni skilríki, þannig að okkur þótti þetta hálfgerð óþarfa skriffinska. Nú þurfti Björn að panta svona upplýsingar og við líka þar sem okkar rann út.
Á miðvikudaginn var svo allt reddí. Gummi var búinn að mæla hvort að það væru örugglega ekki 15 millimetrar frá augum niður á höku á myndunum, sem mér fannst nú alger óþarfi, trúði ekki að það væri tékkað á því.
Svo mættum við.
Konana hélt fyrst að Björn gæti ekki verið vottur fyrir okkur bæði. Það reddaðist (hann hefði getað komið aftur hálftíma seinna). Svo mældi konan hvort að það væru ekki örugglega réttar stærðir á myndunum. Hún var nú eitthvað aðeins efins þar sem að á Gumma mynd voru tæpir 16 millimetrar frá augum niður á nef. Það reddaðist. Svo var hún nú ekki alveg á fara að samþykkja mína mynd þar sem að hún væri svo gömul. Við tókum hana um morguninn! Þó að ég líti ekki út eins og fegurðardrottingin sem ég er á þessari mynd þá tókst mér nú samt að sannfæra hana um að þetta væri ný mynd. Allavegana þá skrifaði ég nafnið mitt nokkuð oft þennan eina daginn og það verðu spennandi að sjá hvort að við fáum þessi blessuðu kort einhverntímann eftir jól!
Björn varð agalega svekktur yfir að við þurftum bara að fara tvær ferði að sækja um skilríki. Mig minnir nebblilega að hann og Kiddi hafi farið í einar 5 eða 6 ferðir áður en þetta hófst hjá þeim í fyrra.

Í dag er ég bara búin að dunda við að læra og skólast og svo byrjar upplestrarfrí einhvertímann í næstu viku. Gummi er aftur á móti búinn að vera í hörku vinnu við að hjálpa Jóni og Betu að flytja. Ætli ég kíki ekki bara til þeirra þegar þau koma aftur úr uppáhaldsbúðinni hans Gumma, ég er víst ekki svo nothæf í svona þungdótaburði þessa dagana.



Skrifað 6:00 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt