29.11.04

Þá eru nú bara ma og pa farin frá mér aftur. Það er nú afskaplega yndælt að fá fólkið sitt í heimsókn í nokkra daga. Okkur tókst, föður mínum og Gumma til mikillar gleði, að fara í næstum allar hm búðir í Stokkhólmi, kíkja á jólamarkaðinn á Skansen, fara á rosalega flott jólahlaðborð í höllinni hér við hliðina, sjá jólastemmninguna í miðbænum og borða og borða og borða. Það er ekki laust við að Dúddi hafi bara stækkað um fáein kíló um helgina...
Þó að það sé svo rosa leiðinlegt þegar þau fara, þá varð ég ekki eins mikil rjúpa og þegar þau fóru síðast. Ég kem nebblielega heim til þeirra aftur eftir rétt rúmar tvær vikur. Núna er tekinn við hressilegur hversdagsleikinn þar sem reynt verður að klára sem flest verkefni fyrir próf og jafnvel kannski lesa eitthvað pínu. Best að fara að vinna í ísskápnum, Dúddi er orðinn svangur. Góðan mánudag!

Skrifað 5:07 e.h. af Sveinbjörgu

22.11.04

Fiðrildahúsið

Þá er bara enn ein skólavikan byrjuð. Bara 2 eftir í upplestrarfrí og svo fer ég bara í eitt próf. Þarf reyndar að skila töluvert mörgum verkefnum í hinum kúrsinum, og kennarinn er ekki búinn að setja nema 4 af 12 verkefnum fyrir. Við erum farin að sjá fram á janúarvinnu til að klára þetta allt saman. Kennarinn sagði reyndar í dag að við mættum skil þegar við vildum einingarnar, svo lengi sem hann væri ennþá að kenna í skólanum. Þetta er svoltið minna stress heldur en í deildinni heima.
Annað er nú varla í fréttum héðan, frekar en vanalega. Fórum reyndar í partý til Palla og Ragnhildar á laugardaginn, en vorum hálfgerði partýpúperar og tókum síðasta strætó heim klukkan hálf tólf. Gummi var búinn að vera hálf slappur og ég er bara svona eins og ég er... Á sunnudaginn ætluðum við Beta svo að kíkja í fiðrildahúsið á meðan strákarnir fóru saman í bandý. Sökum örlítils ruglings á stoppustöðvanöfnum, þá var eiginlega verið að fara að loka þegar við mættum loksins á staðinn. Beta bauð því í staðinn uppá kaffi og heitt súkkulaði á kaffihúsinu og svo enduðum við bara í verslunarmiðstöðinni í Kista að skoða jóladót. Hver veit nema að við reynum aftur einhvern tímann seinna.
Meira var það ekki í bili, gleðilega nýja viku!

Skrifað 4:15 e.h. af Sveinbjörgu

17.11.04

Að bera strá í básinn

Ég er svo góð í sænku. Örugglega fáir jafn hæfileikaríkir og ég... Ég fór í H&M í gær til að kaupa mér bumbubuxur þar sem að ég á eitthvað takmarkað úrval af neðrihlutum sem passa. Ekkert merkilegt við þá búðarferð nema að auðvitað eru buxurnar um 15cm of síðar eins og allar buxur sem ég kaupi mér, eitthvað tengt því að lappirnar á mér eru ekki nógu langar fyrir staðalinn. Þetta er að ákveðnu leiti vandamál þar sem að ég hef hvorki afnot af saumavél né aðgang að ágætum saumakonum sem oft hafa reddað þessu vandamáli fyrir mig. Ég ákvað því að fara í búð sem mig grunaði að gæti selt svona hitastrauborða (veit ekki hvað þetta heitir á íslensku), þannig að ég gæti bara reddað faldinum með því að stauja hann upp. Svo kom aðal vandamálið, ég veit heldur ekki hvað svona hitastrauborði heitir á sænsku, og svo var ég heldur ekkert að muna hvernig maður segir að strauja á sænsku. Ég reyndi nú samt og bað konuna um borða sem er hægt að setja neðan á gardínur eða buxur til að strauja upp og notaði bara sirka íslenska orðið fyrir að strauja, það virkar í mörgum tilfellum. Konan skildi mig alveg og ég fékk borðann í hendur, en þegar ég mætti í skólann þá fletti Björn þessu ágæta orði fyrir mig upp í orðabókinni sinni. Ég veit ekki hvort hann var að ljúga að mér, en ég var sem sagt að biðja konuna um borða til að bera strá í básinn. Konan skildi mig samt og ég held að hún hafi ekki horft neitt mjög undarlega á mig, hún er kannski bara svona vön vitlausum útlendingum þar sem hún vinnur í búð í innflytjendahverfinu Kista?

Skrifað 11:11 e.h. af Sveinbjörgu

16.11.04

Tíðindaleysi

Héðan er ekki neitt að frétta. Við stunduðum uppáhaldsiðju mína alla helgina: gerðum alls ekki neitt. Í gær var svo bara skóli og það er nú hressileg tilviljun að í dag er bara skóli líka. Eftir hádegi eru aðrir fjórir tímar af hressri fyrirtækjahagfræði þar gleðin ríður rækum, eða hvað það er nú sem hún gerir.
Nú eru reyndar bara 9 dagar þangað til ma&pa ætla að koma í heimsókn þannig að mikilli tilhlökkun verður líklega troðið inn á milli lærdóms, sem væri kannski gáfulegt að fara að stunda núna til að geta tekið frí þegar þau koma.

Skrifað 10:55 f.h. af Sveinbjörgu

12.11.04

Hálfnuð

Ótrúlegt en satt þá sé þessi svokallaða meðganga bara hálfnuð. Finnst það samt eiginlega ekki passa, ég er eiginlega bara búin að vita af þessari óléttu í rúmar 12 vikur þannig að mér finnst ég eiga töluvert meira eftir heldur en ég er búin með. Ég og Gummi fögnuðum þessum tímamótum engu að síður, og var það gert með því að gefa Dúdda að borða. Við ákváðum að kíkja á pizzeríuna sem ég er nýbúin að uppgötva að sé í hverfinu, og viti menn, þetta var bara frekar ítalskur pizzustaður og hann var meira að segja frekar huggulegur líka. Pizzurnar voru æði og pizzasalatið, sem ég hef aldrei getað borðað í þessu landi, var bara mjög gott. Þetta var alveg pínuponsu staður sem er bara í einni blokkinní í hverfinu, með fáum borðum og huggó kertaljósalýsingu. Engin arababúlla hér á ferð !! Þessi staður hefur reyndar einn til tvo ókosti, fer eftir því hver á í hlut. Staðurinn er lokaður á laugardögum og það er bara opið til 20:00 hina dagana, og svo fæst ekki bjór þarna.
Það sem eftir er af þessum ágæta degi mun fara í að gera sem minnst. Við fórum nebblilega til Jóns Grétars og Betu í gær, ásamt Kidda og Erni, að spila. Spilið var svo æsispennadi að við gleymdum næstum því að ná lestinni heim. Fórum frá þeim á miðnætti, þurftum að bíða í hálftíma á lestarstöðinni og svo beið lestin okkar eftir okkur þegar við komum niður í bæ þannig að við rétt náðum að hlaupa í síðustu lestina heim. Við vorum þess vegna ekki komin heim fyrr en hálf tvö í nótt, og leið mér þarf af leiðandi eins og ég væri þunn þegar vekjaraklukkan vakti mig í svona hressilega í morgun. Sat svo fjórfaldan fyrirlestur í företagsekonomi og komst að því að H&M þykir eitt best rekna fyrirtæki í Svíþjóð. Þetta finnst mér barasta hin besta ástæða fyrir því að gera ekki neitt í kvöld. Góða helgi.

Skrifað 7:51 e.h. af Sveinbjörgu

9.11.04

Mellanölspartý

Til tilbreytingar þá ætla ég að blogga á þriðjudegi. Hef ekki gert það í lengri tíma. Hér er nú reyndar ekki mikið í gangi annað en skóli og almenn huggulegheit. Á laugardaginn fylltist reyndar íbúðin okkar af fólki. Gunni kom í heimsókn til okkar og í tilefni af því þá eldaði Gummi þessa bara fínu steik. Við ætluðum svo að skreppa í systembolaget á laugardeginum og kaupa eins og eina rauðvín með steikinni en það var bara lokað þar sem það var alla helgons dag eða eitthvað svoleiðis. Mér var nú svo sem sama þar sem að ég er mest í því þessa dagana að súpa ekki vín, en samt leiðinlegara að hafa ekki fínar veigar með fínum steikum fyrir alla hina. Gummi var nú svo sniðugur að eiga ennþá tollinn úr finnlandsförinni þannig að hann þurfti sko ekki að vera þurr um kvöldið. En þar sem að allir sem komu í partýið seinna um kvöldið voru og eru Íslendingar, en ekki Svíjar, þá var sko enginn búinn að kaupa bjór og vín með viku fyrirvara og það vissi heldur enginn af ríkislokuninni. Þeir sem voru ekki svona sniðugir eins og Gummi redduðu sér því með því að kaupa sér marga marga lítra af mellanöli (3,5%) sem fæst útí búð. Ölvunin í partýinu var því mjög hófleg þrátt fyrir "mikla" sem var ánægjulegt í alla staði fyrir konu eins og mig og svo græddum við sko milljón á því að selja allar dósirnar sem liðið skildi eftir :)
Annað markvert er svo sem ekkert í fréttum (ef ofanskráð frásögn telst þá markverð). Ég ætla að fara og kynna mér sjónvarpsdagskrána næsta hálftímann, ef ég næ að vaka svo lengi...


Skrifað 9:09 e.h. af Sveinbjörgu

6.11.04

Laugardagsskrif

Í gær skrifaði ég stuttan texta með yfirskriftinni Föstudagsskrif. Svo dó blogger. Ég á textan reyndar ennþá, þar sem að ég hef lent milljón og einu sinni í því að blogger drepur það sem ég er búin að skrifa, en mér finnst hálf asnalegt að pósta dagsgömlu bloggi. Í staðinn byrja ég bara nokkurnveginn uppá nýtt. Allavegana þá gerðist sá merki atburður í vikunni að ég mætti á onsdagspub. Það var víst planaður einhvers konar Íslendingahittingur þannig að ég varð nú að mæta og kíkja á liðið. Það eru töluvert fleiri svoleiðis lendingar að stúdera í KTH heldur en ég bjóst við, það mættu alveg um 30 manns. Í gær var okkur svo boðið í síðasta matarklúbbshittinginn í bili þar sem að Vala er bara að fara heim á morgun. Það verður svo sem alveg hægt að matarklúbbast áfram þó það vanti einn meðlim en það verður víst bara ekki eins. En í tilefni af því að Vala er að fara að yfirgefa okkur þá verður víst partý hér í kvöld. Ég er ekki alveg viss um það hvernig Guðmundi tókst að sannfæra hressleika ársins um það að halda eitt partý, en ég held að það hafi eitthvað með að gera að ég get þá bara sofnað í eigins rúmi og sent liðið í bæinn :)
Núna væri þá kannski bara gott plan að koma sér í bæinn að versla í matinn þar sem að Uppsala-Gunni ætlar að kíkja í bæinn í kvöld og jafnvel að snæða pínu kvöldmat. Við buðum af því tilefni sambýlingunum Birni og Val til okkar líka og ætlar Gummi að nýta tækifærið og elda steik. Honum finnst ekki eldað nóg af stórum steikum á þessu heimili. Það gerist eiginlega aldrei og stærstu kjötstykkin sem við eldum eru sennilega kótilettur, ég er bara ekki svona steikarkona.
Þá er ég bara farin í bæinn, gleðilegan Allra heilagra dag!
Þ

Skrifað 1:59 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt