31.10.04

Partýdallurinn

Nú höfum við bara farið til Finnlands. Skipið lagði af stað klukkan 17:00 á fimmtudaginn frá Värtahamnen og lullaði svo yfir Helsinki. Þetta var nú pínu fyndið skip. Landgangurinn er á 7. dekki. Þar eftir endilöngu skipinu er einskonar verslunargata sem minnti mig doltið á Kastrupflugvöll. Við þessa "götu" eru líka flestir veitingastaðir skipsins sem og aðal skemmtistaðurinn sem lítur út eins og Hótel Ísland. Huggulega káetan okkar var á 2. dekki, sem er fyrir neðan bíladekkin. Þegar við komum þangað niður með lyftu númer núll (greinilega aðal staðurinn) þá blasti við okkur risa pollur.... þetta var nú sem betur fer ekki merki þess að dallurinn væri farinn að leka, þetta var mjög líklega bara bjór sem einhver hress Finninn hafði sullað niður. Svo var nú komið að káetunni. Hún var nú bara ágæt, reyndar vantaði stigann á aðra efri kojuna og það var aðeins búið að dangla í kamarhurðina og svo var klósettsetan ekki alveg ný. En þröngt mega sáttir sitja og við kúrðum okkur 4 í þessari indælu kompu í 2 nætur.
Aðal attrakksjónið á skipinu mun að öllum líkindum vera tax free búðin. Þar var fólk nánast allan sólahringinn að kaupa sér áfengi og sígó. Ég ætlaði reyndar að kaupa nammi fyrir sama pening og Gummi keypti vín, en þrátt fyrir að drengurinn væri mjög penn í innkaupunum þá tókst það ekki. Um kvöldið var svo kíkt á skipssjóið: Skandinavian hunks. Það var bara fyndið, rosa vont dansatriði með 3 metrósexjúal svíum og einum ofurmössuðum blökkumanni í pínulitlum leðurfötum.
Á föstudagsmorguninn klukkan 8:30 að sænskum tíma var liðinu svo landað í Helsinki. Við fórum í þessa ágætu túristaferð með fullt af Japönum. Rúntuðum um borgina og skoðuðum helstu staðina, sem voru aðallega kirkjur, og skoðuðum "gamla" bæinn, sem er ekkert sérstaklega gamall. Eðal borg alveg hreint, kannski ekkert rosalega stór en voða fín. Að sjálfsögðu hlýddum við reyndum Finnlandsfara og fengum okkur Hesburger í hádegismat. Skildum reyndar ekki neitt á matseðlinum en enduðum þó á því að fá ætan hammara með remúlaði.
Klukkan 16:00 sigldum við svo til baka. Það kvöld var nú bara mjög svipað því fyrra, góður matur og sömu gaurarnir að dansa reyndar nýjan dans. 9:30 á laugardagsmorgninum var ég reyndar aðeins hressari en káetufélagar mínir, það er örugglega bara af því að ég fór fyrr að sofa.... Allavegana þá eru komnar inn myndir úr þessari ágætu ferð, á reyndar eftir að kommenta þær eitthvað, en það gerist við tækifæri.
Þennan sunnudaginn hef ég svo bara verið að dunda við að klára skýrslu sem þarf að skila á morgun, hefur gengið eitthvað hægt sökum einskærrar leti undirritaðrar. Svo í kvöld á ég líka örugglega eftir að setja nýtt met, klukkunni var seinkað aftur í nótt, þannig að klukkan verður 10 í kvöld klukkutíma seinna en í gær...þið megið giska á hvað það þýðir. Ætli það sé þá ekki bara best að fara að tanna og undirbúa sig fyrir háttinn, góða nótt fólk.

Skrifað 8:14 e.h. af Sveinbjörgu

27.10.04

Skemmtiferðarsigling

Á morgun þá er ég að fara til Finnlands ásamt fríðu föruneyti. Ég, Gummi, Jón Grétar og Beta ætlum að fara með ferjunni (sem er reyndar 2000 manna skemmtiferðarskip) yfir til Helsinki og finna okkur eitthvað skemmtilegt til dundurs í einn dag eða svo. Það er ekki amalegt að geta siglt yfir með 2 nóttum á "hóteli" fyrir 195 sænskar krónur á manninn. Hótelherbergið okkar verður reyndar 8 fermetra gluggalaus káeta með kojum fyrir 4 en það er nú svosem ekki slæmt þar sem við erum ekki búin að plana mörg brjáluð herbergispartý. Það er nú reyndar hægt að fá 76 fermetra svítur með svölum og látum en það kostar fáeinar auka krónur. Svo er að sjálfsögðu einhver gleði og glaumur um borð bæði kvöldin en það á bara eftir að koma í ljós. Ég er búin að pakka myndavélinni í veskuna mína þannig að hún á sko ekki að gleymast í þetta skiptið. Nánar um þetta síðar.
Annars er allt fínt héðan að frétta að öðru leiti. Fórum á mánudaginn og kíktum á Dúdda (vinnuheitið á kúlubúanum) Allt leit ægilega vel út en ljósan bara sá ekki, eða vildi ekki sjá, hvort að Dúddi væri strákur eða stelpa. Af vinnuheitinu að dæma þá er nokkuð augljóst að við Gummi erum alveg viss um að það komi lítill dúddi, en það á allt eftir að koma í ljós. Reyndar á það eftir að koma í ljós örlítið seinna en fyrst var talið, en nú er áætlaður komudagur hinn hressi dagur 1. apríl. Hvort það standist á líka eftir að koma í ljós.
Þá mætti ætla að þetta væri orðið nóg af upplýsingum í bili, svefninn kallar, góða nótt allir.

Skrifað 11:20 e.h. af Sveinbjörgu

24.10.04

Verslunarhelgi

Ó hvað Guðmundur hlýtur að hafa skemmt sér vel þessa helgina. Á föstudaginn dróg ég hann í H&M, á laugardaginn fórum við í Ikea og í dag dröslaðist hann með mér í um það bil allar skóbúðir í miðbænum. Árangurinn af þessum endalausu búðarferðum var nú alls ekki slæmur. Við eignuðumst gardínur fyrir stofuna þannig að við erum ekki lengur til sýnis fyrir nágrannana þegar byrjar að dimma, svo eignaðist Gummi þessa fínu innibandýkylfu og svo fann ég loksins skónna sem hann var búinn að ákveða að gefa mér í afmælisgjöf.
Á laugardagskvöldið var okkur, ásamt Kidda og Völu, boðið í mat hjá Jóni og Betu. Við fengum þessa ágætu sænsku svínasteik og tilbehör og svo ís í eftirrétt. Ég ætla að kenna gríðarlegri seddu eftir þennan mjög svo ágæta mat um það að ég steinsofnaði á öxlinni á Gumma á tíma sem gæti ekki talist seinn. Ég hlýt að fara að fá verðlaunin "kvöldsvæfasta manneskjan í Svíþjóð 2004" bráðum, það er örugglega erfitt að finna kvöldhressari karakter en mig! Ég fékk að hverfa inní svefherbergi og kúra þar meðan haldið var áfram að súpa hressa drykki eins og ákavíti og kosmópólítan. Svo alltí einu þegar ég var búin að lúra í stund þá var hurðinni hrundið upp, ég rifin á fætur og hent í útiföt. Við vorum víst alveg að missa af síðustu lestinni þannig að ég náði varla að vakna til að hlaupa af stað útá lestarstöð. Maginn á mér var vægast sagt þungur eftir átið þannig að hlaupin voru algjört helvíti og það var nú ekki mikill hressleiki sem blundaði í mér eftir uppvakninguna þannig að ég hugsa að ég gæti hafa talist leiðinleg í lestinni á leiðinni heim. Ofná allt sama þá fékk ég ekkert að fara á klóið áður en við hlupum út þannig að ég var bara í spreng allan rúma klukkutímann sem við vorum á leiðinni heim. Ég held að ég þurfi að fara að æfa mig í að vaka á kvöldin...
Á morgun byrjar svo bara skólinn aftur eftir annars ágætt helgarfrí... gleðilega nýja vinnuviku.

Skrifað 9:14 e.h. af Sveinbjörgu

22.10.04

Próflok

Nú er 1. period bara búið! Fórum í seinna prófið í dag og svo byrjar þetta bara aftur á mánudaginn. Það er ekki lengra síðan en á miðvikudaginn sem að ég var að útskýra það fyrir Betu að tíminn sem maður fær fyrir hvert próf væri vel rúmur og að maður nýtti aldrei alla 5 tímana sem maður fær, væri kannski bara 3 tíma max...og hvað haldiði að ég hafi gert í dag, ég var 4 klukkutíma og 45 mínútur í prófi, var eiginlega komin með vöðvabólgu í hægri öxlina af öllum skrifunum og var búin með allt nestið mitt. Ég var eiginlega orðin svo þreytt og leið á prófinu um eitt (prófið var frá 9-2) að ég var að spá í að fara bara og klára ekki þetta ansans próf. En það tókst nú samt og ég er ennþá á lífi og við Gummi erum búin að eyða þessu hressa föstudagskvöldi í þrif. Íbúðin okkar verður alltaf svo hressilega skítug þegar við erum að prófast þannig að þetta er eiginlega orðinn hálf fastur liður. Svo tókst nú Guðmundi að gera þessi þrif að hálfgerðum jólaþrifum með því að rífa hálfan ofninn í sundur og skrúbba hann allan.... eníhú þá er nú nógu langt í jólin ennþá og heil skólaperíóda eftir áður en þau fara eitthvað að sýna sig.
Á morgun er aldrei að vita nema að maður skelli sér á á tentapub (spes próflokapúb í skólanum) og fái sér eins og eina jaffa appelsín eftir að hafa dregið Gumma með mér í gardínuleiðangur í uppáhalds búðina hans. Góða helgi.


Skrifað 7:31 e.h. af Sveinbjörgu

20.10.04

Próf og svo aftur próf

Ég fer útúr húsinu á eftir. Held að það hafi ekki gerst síðan á laugardaginn þegar ég rölti í búðina til að kaupa mjólk og rúnstykki. Það er nú spennandi þetta líf námsmanna á prófatíma. Það er sem sagt eitt próf á eftir hjá mér og svo síðasta próf á föstudaginn. Gummi fór í fyrra prófið sitt á mánudag og svo fer hann einmitt í nokkurnveginn sama próf og ég á föstudaginn. Skondið svoltið hvað Guðmundur er óheppinn með "sætisfélaga" í prófum í þessu landi og á það þá sérstaklega við kúrsa sem eru kenndir í svona international mastersprógrömmum. Haldiði ekki að strákurinn hafi bara aftur fengið indverja við hliðina á sér sem var alltaf að stara á blöðin hans og byrjaði alltaf að teikna sömu myndir og hann rétt á eftir honum... einkennilegt. En það er nú sko hægt að velja verri verkefni en hans Gumma litla til að herma eftir.
Mér finnst samt pínu svindl að vera ekki á leiðinni heim í jólafrí núna þegar lokaprófin eru búin á föstudaginn, finnst hálf jólalegt að vera í prófum í skammdeginu og þar sem að ég hef ekki farið út og veit þar af leiðandi varla hvernig veðrið er, þá finnst mér bara vera jólastormur úti (sem er það eina sem er í fréttum frá Íslandi) . Það er nú reyndar alveg 10 stiga hiti og hálf sæmilegt verður, en ég sé það varla, finnst glugginn bara einhvernveginn vera að ljúga (þ.e. þegar ég nenni að draga upp).
Augljóslega ekkert spennnó að frétta frá þessum bæ og verður væntanlega ekki fyrr en á föstudag. Hver veit nema að maður skrifi eitthvað þá?

Skrifað 10:13 f.h. af Sveinbjörgu

13.10.04

Heyrnarskaði

Við Kristinn vorum í verklegri æfingu áðan. Æfingin snerist að miklu leyti um það að reyna að heyra mun á hljóði. Í stuttu máli þá heyrðum við varla mun á neinu og hún Laura, sem sá um labbið, spurði hvort að við hefðum farið á marga tónleika án eyrnatappa.... til að bæta gráu ofaná svart þá var bara staðan í leiknum allt í einu orðin 0-4. (þ.e.a.s. Ísland-Svíþjóð leiknum). Til að bæta ennþá ofaná þetta allt þá var labbið frá 5-9 og um 7 var ég orðin svöng kona. Sem betur fer á ég nú svo góðan spúsa að hann var bara með matinn tilbúinn þegar ég kom heim þannig að þetta er allt að koma í lag aftur. Er því að spá í að beila á lærdómnum núna og kúrast ofaní sjónvarpssófa með Gummanum mínum. Getið hver sofnar á undan!

Skrifað 9:40 e.h. af Sveinbjörgu

12.10.04

Úber helgi

Þá er ég bara mætt aftur á alheimsnetið. Ég hef nú bara ekki komið neitt mjög mikið nálægt tölvunni minni síðan á föstudagsmorguninn en þá komu Sigga og Stinni í heimsókn til okkar. Við túristuðumst að sjálfsögðu alveg helling með þeim, kíktum á kóngsa, fórum í bæinn og skelltum okkur í Kaknästurninn. Við vorum örlítið duglegri en vanalega að muna eftir myndavélinni og því má skoða fáeinar myndir hér til hliðar.

Á sunnudaginn var Guðmundur búinn að plana bandý með strákunum. Ég var ekkert lítið fúl þar sem ég hef hann grunaðan um að hafa ekki alveg fattað hvaða dagur var... engu að síður þá ákvað ég að bjóða í kaffiboð (þar sem að ég þyki ekki partývæn þessa dagana) og vakti því gestina mína á hálf ókristilegum tíma með eldhúsbrölti og íkveikju. Íkveikjan var nú kannski ekkert sérstaklega alvarleg, mér tókst bara aðeins að kveikja í eins og einni köku þannig að það var byrjað að sóta útúr ofninum. Gummi stökk til og reif reykskynjarann úr sambandi, húsið var reykræst og svo var bakstri bara haldið áfram. Ég held nú að kökurnar hafi svona hálf heppnast, þær kláruðust allavegana næstum því allar og svo mætti Jón Grétar með þessar fínustu lummur sem hann hafði dundað sér við að baka.

Ég komst að því um helgina að Sigga og Stinni búa allt of langt í burtu og að það er allt of langt þangað til að ég hitti þau næst :( Þau hafa líka svo góð áhrif á hann Gumma, held að hann hafi bara losnað að miklu leyti við kvefdrulluna sína meðan þau voru hérna hjá okkur... kannski það hafi bara verið jägermeisterflaskan sem Stinni kom með sem reddaði því....
Allavegana þá er rosalega góð helgi að baki og við er tekinn upplestrartími fyrir prófin í næstu viku (og þar af leiðandi enginn onsdagspub á morgun!)



Skrifað 10:12 e.h. af Sveinbjörgu

6.10.04

101 blogg

Ég tók eftir því þegar ég loggaði mig inn á bloggerinn minn áðan að ég er búin að rita einar 100 færslur um svaðilfarir mínar og ástmannsins í Svíþjóðinni og mun þetta því verða færsla númer 101. Húrra fyrir því.
Enn og aftur er kominn miðvikudagur og hvað er meira viðeigandi á indælu miðvikudagskvöldi eftir langan skóladag en að rífa í sundur einnota myndavél. Ég passaði mig nú sérstaklega á því að taka batteríið úr fyrst og afhlaða þéttinn fyrir flassið til að ég gæti nú ekki gefið sjálfri mér stuð og enda á sjúkrahúsinu með hjartatruflanir eins og einhverjir gáfaðir unglingar gerðu heima samkvæmt mbl. En af hverju að rífa í sundur eins og eina myndavél? Ekki var það af því að filman festist og ekki vegna þess að ég öðlaðist allt í einu óþrjótandi áhuga á myndavélum heldur vegna þess að ég þarf að endurhanna sambærilegt linsusystem og er í svona apparati í tölvulabbi sem ég er að fara í á morgun. Ég bjóst nú við að þetta væri eitthvað merkilegt verkefni. Svo tókst mér að rífa bakhliðina af ruslinu og þá kom í ljós að allt systemið samanstendur af einni prumpulegri plastlinsu og opi. Ég varð nú fyrir örlitlum vonbrigðum og er alveg hætt að hlakka til að vinna þetta verkefni.
Ég hlakka aftur á móti allt í einu afskaplega mikið til jólanna.... kannski ekki alveg tímabært þar sem að tréin fyrir utan erum ennþá með fullt af grænum laufum og það er alveg 14 stiga hiti úti, en engu að síður er hið ágæta jólalag white christmas búið að vera fast í hausnum á mér í allan dag! Held að ég biðji þá frekar um E-type.
Allavegana þá er núna tími á að fagna færslu númer 101 með grjónagrautnum sem ástmaðurinn hefur verið að malla undanfarinn klukkutímann eða svo, gleðilegan miðvikudag.

Skrifað 7:17 e.h. af Sveinbjörgu

4.10.04

Blogg dagsins í dag

Mér finnst eins og það sé bara alltaf mánudagur. Mér finnst reyndar svoltið eins og það sé líka alltaf miðvikudagur.... og eiginlega finnst mér alltaf að koma helgi....allavegana þá var nýliðin helgi að mestu leyti nýtt í lærdóm. Ég þarf nebblilega að duglegast fram að næstu helgi þar sem að Siggan mín ætlar að koma í heimsókn og þá mun ég ábyggilega ekki skólast neitt. Ég hlakka svo til :)
Á föstudagskvöldið var Gummi búinn að bjóða strákunum til sín í það sem að ég myndi kalla njarðasamkomu. Þeir voru að plana eitthvað voða fansí smansí forritunarverkefni og að sjálfsögðu súpa smá öl. Ég, Beta og Vala fórum því bara í kellingabíó á kellingamyndina Wimbledon. Í salnum voru bara kvenkynsmanverur fyrir utan fáeina drengi sem voru örugglega að fara á 1. eða 2. deit með dömunni sínum(hefðu annars ekki samþykkt að fara með). Myndin stóð fyllilega undir væntingum, sem voru nú ekki miklar, og skilaði manni voða hamingjusömum heim. Viðburðaríkari var helgin okkar ekki og fórum við varla út úr húsinu nema til að henda rusli....

Skrifað 5:53 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt