30.9.04

Gummi snilli

Fór ég á onsdagspub í gær? Nei, að sjálfsögðu ekki. Félagsbæsið og innipúkinn ég ákvað bara að beila í enn eitt skiptið. Þrátt fyrir að ég hafi að mestu leyti komist hjá ógleði samfara ástandi mínu þá verð ég engu að síður mjög óglöð í miklum sígóreyk og ákvað þess vegana að vera bara heima með skólabókunum. Þegar mér var farin að leiðast ljósfræðin þá hlammaði ég mér að sjálfsögðu fyrir framan sjónvarpið og sofnaði yfir hinni ágætu mynd Pulp fiction.
Gummi hélt nú uppi glaumheiðri þessa litla heimilis og fór í Alhuset og saup á fáeinum bjórum. Þegar ég vaknaði svo í sófanum eftir "örstuttan" blund þá komst ég að því að drengurinn var nú ekki kominn. Hann var víst búinn að missa af síðasta strætó en átti enn séns í síðustu lest. Ég hringdi því og rak á eftir honum að koma heim, eins og góðri konu sæmir, og við það hljóp strákurinn út í lest og rétt náði henni. Á leiðinni ákvað hann að hringja í mig og segja mér frá kvöldinu. Hann var svo rosa sokkin í þær miklu umræðu sem fóru á milli sofandi konunnar og hans að hann bara gleymdi óvart að fara út úr lestinni.... þegar hann fór svo út á næstu stöð var lestin að sjálfsögðu hætt að ganga niðreftir aftur þannig að hann þurfti barasta að skokka heim. Sem betur fer komst hann nú heim í heilu lagi sem er kannski ekki alveg ástandið sem er búið að vera á honum í dag!

Ég vaknaði aftur á mótu úber hress í morgun og var mætt í bíó klukkan 10. Bíóferðin var skólaheimsókn, með hljómfræðikúrsinum, og lenti ég í ágætasta fyrirlestri hjá bíósalanördum Stokkhólms. Heimsóttum svoltið skemmtilegt bíó. Það minnti mig svoltið á blöndu af þjóðleikhúsinu og stjörnubíó, en er engu að síður tæknilegasta bíóið í Svíþjóð.
Óvell, læra núna, baka múffins á eftir, læra á morgun og hver veit nema að maður skelli sér bara í bíó annað kvöld.

Skrifað 5:34 e.h. af Sveinbjörgu

26.9.04

Tónleikar og Teiti

Þessi helgi var nú bara óvenju viðburðarík og það sem meira er þá var þetta allt skipulagt með margra daga fyrirvara.... ætli maður sé að svenskast eitthvað? Á föstudagskvöldið fórum við Kiddi á tónleika í Bernwaldhallen. Þetta var eins konar hópferð með akústíkhópnum og var planið að kynna sér hljómburðinn í þessum ágæta sal. Radíósymfónían spilaði fyrir okkur bæði tónlist og ólist á meðan Gianadrea Noseda (stjórnandinn) hoppaði eins og óður maður fyrir framan hana. Við fengum að skipta um sæti í hléi til að heyra hljómburðinn á mismunandi stöðum í salnum. Ég hef annaðhvort eitthvað bilaða heyrn eða þá einfaldlega skildi ég ekki 45 sænsku króna muninn á þessum tveim sætum sem ég fékk þannig að ég hugsa nú að heimsóknin hafi í mínu tilfelli ekki skilað tilætluðum árangri. Fengum annars að heyra verk eftir Lizt, Saariaho (finnskan óhljóðsgjafa) og Stravinskij. Venjulega finnst mér Stravinskji ekkert skemmtilegur og semja bara hálfgerð læti, en vá hvað eldfuglinn hans rann ljúflega niður á eftir finnska ógeðinu.
Á laugardaginn hélt Ernir svo upp á afmælið sitt. Hann var með rosa plan sem byrjaði kukkan 3 í KTH-hallen, þar sem spilað var bandý og drukkinn bjór, svo var haldið í lan og svo var farið heim til hans í partý. Eina vandamálið var að stelpunum var bara boðið í partýið en ekki í heilu dagskrána. Í staðinn þá vöndruðum við Beta bara um bæinn í leit að afmælisgjöf, átum sætindi og fórum á soltið einkennilega listasýningu. Smelltum okkur svo bara í partýpartý.
Það var nú samt svoltið skerí svipurinn á Ingibjörgu, kærustunni hans Ernis, þegar við mættum. Við héldum fyrst að við værum eitthvað voða óvelkomnar (strákarnir voru enn að lana), en þá var málið víst bara að henni brá pínu mikið þar sem að hún var víst í einhverjum vandræðum með monsterpitsudeig og hélt að drengirnir væru mættir. Ernir hafði nebblilega búið til tvö risa deig áður en hann fór í bandý og sett skálarnar í baðið. Þegar Ingibjörg fór að tékka á deiginu þá var það búið að skríða um allt baðkerið. Þá færði hún það inn í eldhús, þreif baðið og þá var deigið líka búið að skríða um allan eldhúsbekkinn. Hún var um það bil búin að redda eldhúsinu þegar við mættum, þannig að við skildum alveg svipinn á henni svona eftir á. Þegar drengirnir svo loksins mættu þá stóðum við Beta að sjálfsögðu bara í eldhúsinu með henni Ingibjörgu og mölluðum pitsu ofaní svangan skrýlinn. Partýið sjálft var rosa fínt nema bara að partýdýrið Sveinbjörg "drapst" fyrst á sófanum um klukkan 11. Fékk að skríða í rúm húsráðenda og var svo vakinn um 1 til að dröslast í lestina heim.
Nú sé bara kominn sunnudagur og ég er að spá í að gera sem minnst í dag. Skemmtileg tilbreyting samt þessa dagana að vakna hressari á sunnudagsmorgi eftir partý heldur en Gumminn minn :)

Skrifað 1:48 e.h. af Sveinbjörgu

22.9.04

Onsdag

Þá sé bara kominn miðvikudagur. Skemmtilegt hvað þeir koma nú oft í viku. Kláruðum síðasta labbið í öðrum kúrsinum okkar í morgun og svo tók ég mig bara til og lærði í skólanum. Fannst reyndar afríkukallinn sem sat fyrir framan mig í lesstofunni tala svoltið hátt við konuna sína í símann en annars gekk það bara ágætlega. Er núna bara komin heim og ætla sko að skrópa aftur á onsdagspub. Ég meika einhvernveg ekki að vera innanum milljón manns núna, séstaklega þegar rúmlega helmingurinn er að reykja. Hugsa að ég nýti þetta huggulega rigningarkvöld í að þrífa í staðinn. Áhugavert líf eller hur?

Í gær fór ég svo í enn eina spítalaheimsóknina. Konan þar tók úr mér heila 30 ml af blóði til að tékka á hinu og þessu. Ég hef nú farið í blóðbankann nokkru sinnum og þá eru teknir næstum því hálfur líter, og eftir þær heimsóknir líður mér yfirleitt ágætlega. Í gær varð ég aftur á móti svo hress að þegar ég kom heim klukkan 12 þá sofnaði ég, skrópaði í skólanum og sofnaði svo aftur klukkan 18. Til að toppa hressleikann þá sofnaði ég síðan þessum væra blundi klukkan 22:30 og vaknaði varla fyrr en klukkan 6:35 í morgun þegar klukkan mín hringdi.

Eftir þennan lestur hafið þið eflaust komist að því að í mér blundar óseðjandi partýdýr. Ég er því hætt að eyða verðmætum tíma í að skrifa um ekki neitt hér og farin að ryksuga. Gleðilegan miðvikudag!

Skrifað 6:09 e.h. af Sveinbjörgu

20.9.04

Mánudagur til mæðu

Byrjaði daginn í dag, eins og svo oft áður, á því að vakna. Þá var klukka 6:35. Uppgötvaði að frunsan mín er orðin 4x stærri en í gær. Fór í sturtu, borðaði hafragraut og tók lýsi. Nú hlaut þetta að fara að skána. Næsta verk var þá að fara í strætó. Strætó seinkaði um 10 mínútur þar sem að einhverjir apaheilar í Tensta (bæjarhluti norðan við Stokkhólm) stunda það þessa dagana að skjóta úr loftbyssum á strætó sem er á ferð. Þetta var nú svo sem ekki neitt of langur tími (ég er bara í tuð stuði núna) og við sluppum í tíma af því að við erum nú alltaf svo tímanlega í því að leggja af stað.
Skólinn var ofurhress... fjórfaldur tími í optik. Skemmtilegasta fag í heimi myndi verða leiðinlegt á 4 klukkutímanum þannig að um 10 var ég alveg að mygla. Strax eftir hádegi átti ég svo að fara í spennandi heimsókn með hinum kúrsinum sem ég er í Radiohuset, þar sem ríkisútvarpið er til húsa (augljóslega). Þar sem að ég er svöng kona þessa dagana þá ákvað ég að koma við hjá Ronaldi vini mínum og fá mér eina samloku. Búllan hans er nú bara á leiðinni útí lest og ég ætlaði bara að borða á leiðinni niður í bæ. Það var nú hádegi og því þurfti ég að standa í fáeinar mínútur og bíða eftir matnum. Ég tók því lest sem fór 10 mínútum seinna niður í bæ en annars. Á venjulegum degi hefði það ekki skipt máli, en á þessum hressa mánudegi þá stoppaði lestin í göngum mitt á milli Fridhemsplans og ráðhússins. Til að byrja með skipti þetta engu máli, svo fóru ljósin eitthvað að blikka, og svo var slökkt á þeim, og svo heyrðist voða krípi gashljóð, svo var kveikt aftur, maður lét vita um tæknikrangl, ljósin slökkt, krípi gashljóð. Þetta gekk eða gekk ekki í rúman hálftíma. Undir lokin varð mér orðið voða heitt og var held ég farin að ímynda mér að súrefnið væri alveg að verða búið. Sem betur fer lullaðist lestin af stað á endanum þannig að allir komust nú út. Vandamáli var bara það að ég var búin að missa af strætónum sem var á eftir strætónum sem ég missti af, þannig að ég fór bara í fýlu og ákvað að skrópa í útvarpsheimsókninni. Til að aðeins létta á óhamingjunni fór ég í hm að skoða fallegt dót.
Er því heima núna, alveg að fara að læra, örfáum krónum fátækari en glaðari.

Skrifað 3:49 e.h. af Sveinbjörgu

18.9.04

Ég held að ég fái seint verðlaun fyrir að skrifa mikið á þessa síðu. Hér verður því sett inn stutt samantekt á vikunni:
Mánudagur: skóli
Þriðjudagur: skóli
Miðvikudagur: Spítalaheimsókn og skróp á onsdagspub (Gummi fór reyndar, ég ákvað að vera bara myglaði félagskíturinn sem sofnar yfir sjónvarpinu klukkan 10 og fara ekki með)
Fimmtudagur: skóli
Föstudagur: skóli
Fór reyndar eftir skóla í gær og kíkti í búðin hennar Betu. Það er núna uppáhaldsbúðin mín, rosa fín egypsk magadansbúð. Mig vantar kannski ekki alveg magadansbúning núna en það er sko alveg hægt að týna sér í þessari snilldarbúð. Eftir óstutta heimsókn í Betubúð fór ég í risa verslunarleiðangur í matvörubúð og systemið og svo komu Jón og Beta og Kiddi og Vala í heimalagaða hammara til okkar.
Annars erum við nú búin að eiga eitthvað bágt með að einbeita okkur að skólabókunum þessa dagana, en planið er nú að mennta sig aðeins um helgina og bæta upp tapaða vinnutíma síðustu viku.


Skrifað 11:53 f.h. af Sveinbjörgu

13.9.04

Blogglausa vikan

Ég var alltaf á leiðinni að fara að blogga um æsispennandi daga okkar Guðmundar í útlandinu, en var alltaf að bíða eftir ofursvala myndaskipulagssysteminu sem að áðurnefndur er búinn að vera að dunda við að búa til. Það er sem sagt nokkurn veginn tilbúið núna, a.m.k. þá er fyrsta útgáfan komin þannig að myndaglaðir lesendur geta kíkt á myndir með því að smella á hnappinn hér efst til hægri. Við erum nú reyndar ekki búin að vera neitt sérstaklega dugleg að taka myndir síðan við komum út, gleymdum til dæmis græjunni þegar við fórum í strandpartýið og einhver svona minni háttar klúður. Það er þó hægt að skoða þessar fáu myndir sem við höfum tekið hér úti ásamt flestum sem að við tókum í sumar. Við munum nú eitthvað bæta okkur í myndatökunni í framtíðinn og þá koma kannski ferskar og nýuppteknar myndir beint á alheimsnetið.
Síðan ég bloggaði síðast hefur nú ekki neitt sérstaklega margt gerst. Fórum í skólann, lærðum, ég lummaðist meðan Gummi var að gera myndaforrit og annað álíka spennandi. Fórum reyndar aðeins í bæinn á föstudaginn og hittum Betu og Völu og drukkum ókeypis fanta free í Kungsanum (Kungsträdgården). Það er hálfgerð synd að hangsa inn og gera eitthvað uppbyggilegt eins og að læra þegar síðastu sólargeislarnir eru að sýna sig í september. Á laugardaginn byrjuðum við líka á því að reyna að læra, en hitamælirinn okkar (sem lýgur reyndar ansi oft) sýndi heil 23 stig þannig að við hjóluðum í kringum Brunnsviken (risa vatnið hans Gumma) og skoðuðum mannlífið. Við mundum nú eftir myndavélinni í það skiptið þannig að þær myndir koma bráðum inn, á bara eftir að setja pínu texta með þeim. Á laugardagskvöldið komu Jón og Beta til okkar í mánudagsmat og á sunnudagin gerði ég nákvæmlega ekki neitt.

Nú er bara komin ný vika með nýjum spennandi verkefnum, eða þeim sem ég nennti ekki að sinna í síðustu viku. Gleðilegan mánudag!


Skrifað 3:52 e.h. af Sveinbjörgu

7.9.04

Hahahahahahahahah

Ég og Gummi höfum doltið verið að velta fyrir okkur ákveðnum manni sem að bíður stundum eftir sama strætó og við þegar við erum á leiðinni úr skólanum. Við höfum aðallega tekið eftir honum þegar hann talar rosalega hátt í símann sinn eitthvað óskiljanlegt afríkumál og hlær sennilega meira en hann talar. Helsta vangaveltan sem hefur komið upp er hvort að það sé kannski einhver siður í einhverju afríkulandi (kann ekki afríska landafræði) að hlæja svona svaka mikið þegar maður talar við fólk. Við höfum nú ekki séð hann síðan í vor, en sem ég stend á færibandinu á leiðinni í tunnelbanan í skólanum þá standa beint fyrir aftan mig tveir svipað svartir félagar að spjalla saman á vondri ensku og hlæja eins og þeir fái borgað fyrir. Fyrir forvitnis sakir hleraði ég samtalið (eða komst ekki hjá að heyra það). Þeir voru að ræða um það að annar þeirra þurfi að fara í endurtektarpróf vegna þess að tveir kúrsar sem hann var í, voru með próf á sama tíma. Ég fór í framhaldinu að velta fyrir mér: er ég svona afskaplega húmorslaus eða er þetta bara eitthvað innprentað í afríkana að hlæja bara?
Mér finnst þetta svo sem ekkert vond hugmynd. Það hefði örugglega verið miklu skemmtilegra að taka á móti öllum kvörtununum hjá heilbrigðiseftirlitinu í sumar ef að kvartararnir hefðu hlegið mestallan tímann.
Eins og fólk gæti kannski ímyndað sér, þá fór bæði dagurinn í dag og gærdagurinn í það að skólast og ferðast milli skóla með lest og fara svo heim að læra og borða. Og svo í kvöld bættist við ofurspennandi þvotthússtími, best að setja í fimmþúsundustu vélina í kvöld.....bara þrír og hálfur tími í miðvikudag !

Skrifað 8:08 e.h. af Sveinbjörgu

5.9.04

Sunnudagur

Ef ég er ekki bara búin að liggja í sólbaði við lestur á mini-grasbalanum hér fyrir utan gluggann í dag. Afskaplega hugguleg leið til að jafna sig eftir partýstand gærkvöldsins og mennta sig á sama tíma.
Það var reyndar ekki eins frábært veður í gær (þó að það myndi skilgreinast sem frábært heima) þegar við grilluðum á ströndinni. Fínt veður engu að síður og strandpartýið hennar Betu heppnaðist bara ansi hreint vel. Það grilluðu sér allir pulsur nema Gummi, Valur og Björn. Gummi var nú reyndar alveg penn og fékk sér bara grísakótilettu og smá grillað grænmeti. Sambýlismennirnir Björn og Valur grilluðu aftur á móti 1.2 kíló af grísalund. Það var svo mikið ferli að grilla dýrið að þeir þurftu að nota 2 einnota grill og margar margar mínútur til að fá nú rétta áferð á þetta allt saman.
Þegar sólin var sest þá var haldið heim til afmælisbarnsins. Þar var boðið uppá súkkulaðiköku og bollu. Svoltið sérstök blanda :) en hún fór nú vel í flesta. Svo var að sjálfsögðu sungið frameftir á elliheimilinu í Bromma áður en haldið var heim. Við vöktum nú dálitla athygli á lestarstöðinni þegar við biðum eftir lestinni heim. Við vorum nebblilega með 3 kolla með okkur (ekki nógu mikið af sætum til hjá Jóni og Betu) og þar sem að við þurftum að bíða í korter eftir rauðu lestinni okkar þá var nú bara tilvalið að hlamma sér niður. Björn, Valur, Gummi og ég sátum því þarna í makindum meðan allar hinar fyllibytturnar þurftu að standa.
Fyrir utan lestur og sól þá höfum við bara dundað okkur við að þrífa uppsafnaða sumarskítinn úr íbúðinni í dag og svo ætla ég hugsanlega bara að kynna mig aftur fyrir sjónvarpstækinu í stofunni í kvöld.

Skrifað 5:58 e.h. af Sveinbjörgu

4.9.04

Vatnið ógurlega

Þá sé bara kominn laugardagur. Þá er nú viðeigandi að lauga sig aðeins sama hvort það verðu gert að innan eða utan. Stefnan er tekin á ströndina (þó að það sé nú engin sól í augnablikinu) til að fagna afmælinu hennar Betu, (til lukku með ammælið). Mæting er klukkan tvö í villuhverfið Nockeby (þar sem þau búa með ríka og gamla fólkinu) og þá byrjar bara gleðin. Nánari fréttir um skandala og uppákomur í teitinu verða færðar hér inn síðar......
Í öðrum fréttum er það helst að við fórum í fínasta mat til Jóns og Betu í gærkvöldi og á fimmtudagseftirmiðdaginn týndi ég eins og einum Guðmundi. Ég fór í hin rólegasta í tíma klukkan 3 og þegar ég var búinn 2 tímum síðar þá ákvað ég nú að hringja í drenginn þar sem að ég er búin að fá þetta fína símakort. Hann svaraði ekkki, hann gæti nú verið að dunda við ýmsustu hluti þar sem ekki heyrist í símanum, þannig að ég var nú bara ekkert að hafa áhyggjur og fór bara í lestina. 15 mínútum síðar var ég komin heim og þar var enginn Gummi. Það eru nú ekki margir staðir í 48 fermetra íbúð sem hægt er að fela sig á og allir skórnir hans voru inni og skólataskan og síminn. Ég kíkti inní geymslu og meira að segja undir rúm... bara svona ef þetta væri rosa skrýtið grín hjá honum. Allt kom fyrir ekki og ég sat ein og beið og beið og beið. Loksins rúmum klukkutíma síðar kom sveittasti Guðmundur í heimi aftur heim til sín. Þá hafði hann ákveðið að fara út að skokka og bjóst nú bara við að vera kominn aftur áður en ég kæmi heim. Hann var nebblilega búinn að ákveða að skokka hringinn í kringum "litla" vatnið sem er hérna rétt hjá okkur. Til útskýringar á því af hverju Gummi var ekki tæpan hálftíma að hlaupa þennan hring, og það í fyrsta skipti sem hann fer út að hlaupa í heilt ár, þá er kort hér. Við búum þar sem stóra rauða doppan er og vatnið er beint fyrir sunnan okkur. Hann átti víst eitthvað erfitt með að fara upp og niður stiga í gær og býst ekki við að kaupa sé leikfimikort fyrr en á mánudaginn.
Best að fara að undirbúa sig fyrir ströndina, vonandi fara þessi ljótu ský að færa sig svo það verði nú að minnsta kosti hægt að stinga tánum í sandinn.

Skrifað 9:55 f.h. af Sveinbjörgu

2.9.04

Vandamálasköpun og lausnin

Ég komst að því um daginn að heimspeki fjallar um það að byrja á því að skapa vandamál til þess að leysa. Þetta er svona svoltið eins og atvinnubótavinna. Málið er að við Gummi ætluðum að lesa kúrs hérna sem heitir Bestlutsteori eða ákvarðanatökufræði !!! Svo komumst við að því að það er búið að leggja niður kröfuna um samfélagsfræðikúrsa í skólanum, hálf fúlt að komast að þessu eftirá, en ætluðum engu að síður að reyna að mæta í tímann og bara svona tékka á stemmingunni.
Ég hélt að ég myndi deyja þetta var svo leiðinlegt. Fyrirlesarinn vinnur við það að setja markmið og svo er hún með doktorsnema sem vinna að því að taka rökréttar ákvarðanir varðandi traffík. Við sem sagt fórum út í hléi og ætlum aldrei að mæta aftur. Ég tek kannski áhættu á að hljóma fordómafull, en rosalega er heimspeki mikið rugl. Ánægjulegt að segja frá því að við erum búin að leysa beslutsteori vandamálið og erum búin að skrá okkur í aðra sniðugri kúrsa í staðinn, held að það hafi bara verið voða góð ákvörðun.
Ótrúlegt en satt þá erum við Gummi, sökum nýrra kúrsa, ekkert búin að hittast í dag :) en ég fæ nú vonandi að sjá drenginn í kvöld.

Skrifað 1:44 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt