29.4.04

Próf og lestur og freyjurís

Hið ofur skemmtilega efnafræðipróf er nú loksins búið. Við vorum eitthvað aðeins að misskilja, héldum að þetta væri bara svona annarpróf sem færi fram í stofu og kennarinn myndi sitja yfir. En nei, þetta var bara ægilega formlegt próf þar sem að maður þurfti að mæta með skilríki og læti og fékk spes prófbók. Ég stressaðist nú bara upp yfir herlegheitunum og ennþá frekar þegar ég komst að því að ég væri klukkulaus. Ég held reyndar að það sé ekki góður undirbúningur fyrir próf að horfa á heimsmeistaramót í ofbeldisfullri íþróttagrein, þó að það hafi verið mjög ánægjulegt að sjá Tre Kronor sigra Rússa í íshokkí og vera þar með efsta liðið í riðlinum. Þetta próf gekk þó vonandi upp. Kennarinn er víst búinn að senda öllum í bekknum einkunina nema okkur, hálfgerð mismunun það!
Erum núna að rembast við að lesa (og borða freyjurís) þar sem að sú iðja mun verða vanrækt (nema átið) algerlega á morgun (og örugglega laugardaginn líka). Við erum nebblilega að fara til Uppsala í fyrramálið þar sem fagnað mun Valborgarmessu. Planið hljómar svona frekar hressilega og mun enda í grillgjörningum hjá Þóru og Hákoni Björnsbróður. Nánari lýsingar á gjörningum morgundagsins verða væntanlega birtar hér á síðunni þegar þeir hafa verið framkvæmdir.

Skrifað 7:04 e.h. af Sveinbjörgu

27.4.04

Loksins skóli

Skólinn er loksins byrjaður aftur. Fórum á einhverskonar val fund hjá deildinni okkar í gær, þar sem að kallar frá undirdeildunum voru að reyna að lokka fólk til sín. Þetta var ægilega týbískur val-fundur þar sem verið var að lofa hina og þessa línu. Mér fannst samt merkilegt að Svíjar minnast voðalega mikið á það hvað þeir séu litlir í rafmagnsverkfræðiheiminum og að það sé sko bara hægt að vinna við hitt og þetta annarstaðar í Evrópu ef vinnan finnst ekki í Svíþjóð. Heima á Íslandi er töluvert minna af slíkum störfum í boði og eru þau mun minna fjölbreytt heldu en hér úti, samt er ekki minnst einu orði á það í skólanum. Ég held að það sé vegna þess að Ísland er stærsta og besta land í heimi.... Ég held reyndar að kallinn í materialfysik hafi ekki verið að veiða marga fiska. Hann talaði þanngað til loftið var búið, talaði í bylgjum og svo starði hann annaðhvort á fólkið í salnum eins og hann ætlaði að drepa það eða þá starði hann bara á skóna sína. Ægilega hress kall. Ég held ég sé samt komin í hálfgert klandur eftir þennan fund af því að það er svo mikið af kúrsum sem mig langar að taka en ég hef bara pláss fyrir 40 einingar, kannski gerist ég bara eilífðarstúdent.
Nýjasta planið er að hjóla í skólann á ofur-rækjunni, mennta mig og undirbúa mig svo fyrir prófið á morgun, hvernig sem það verður nú gert.

Skrifað 11:39 f.h. af Sveinbjörgu

21.4.04

Aðgerðaleysisblogg á miðvikudegi

Ég vildi að það væri hægt að segja frá einhverju spennandi héðan úr Svíaríki. Við höfum gert voðalega fátt af okkur annað en að læra hjóla borða og sofa. Því verður væntalega haldið áfram a.m.k fram að helgi og svo séð til hvað við partýdýrin gerum af okkur....... ....... Annars þá held ég að nafnið Ofur-Rækjan sé nú að festast við hjólið mitt, þannig að Siggi má koma og sækja ísinn sinn, hann er svo vondur að hann mun örugglega fá að vera í friði í frystinum þangað til þú kemur, hvenær sem það er :) Mér finnst það allavegana voðalega rækjulegt af hjóli að tapa öðrum pedalanum í miðri hjólaferð, þegar það er ekki nema viku gamalt. Verkfærakallinn Gummi var nú ekki lengi að redda því þannig að ég get haldið ótrauð áfram að kanna dýralíf Stokkhólmskra skóga. Við sáum nebblilega einhverskonar dýr í skóginum í síðustu hjólaferð. Gummi heldur því fram að þetta hafi verið Bambi, en mér sýndist þetta eiginlega bara vera risakanína með kassaandlit.... og ég hef örugglega rétt fyrir mér þar sem að drengurinn var gleraugnalaus. Nóg af bulli í bili, verð að halda áfram að gera eitthvað uppbyggilegt. Gleðilegan miðvikudag!

Skrifað 5:36 e.h. af Sveinbjörgu

18.4.04

Þorláksmessa

Mér finnst núna eins og það sé þonnlákur í litlu íbúðinni okkar. Það er nebblilega svona sambland af ajax hreingerningarlykt og hangiketsilm hér inni. Gríðarlega hressandi. Við tókum okkur til og suðum hangikjötið sem ma og pa komu með fyrir okkur og því er yndælasta jólalykt í húsinu okkar. Við eigum reyndar ekki neitt sérlega gott safn af stórum pottum þannig að við suðum það bara í pönnu og hlökkum núna ægilega til að jéta það. Verst að það vantar ora baunirnar með....
Dagurinn í dag hefur sem sagt bara verið eins konar lærdóms og þrifnaðar dagur. Í gær fór lítið fyrir lærdómi þar sem að Björn tók okkur með sér í skoðunarferð um nágrenni Hässelby þar sem Kiddi og Vala búa. Við fundum þessa ægilega huggulegu sandströnd með blakvelli og allt. Það var kannski ekki orðið alveg nógu hlýtt til að baða sig í "sjónum" þannig að við fórum bara heim til þeirra og héldum þessa svakalegu pulsugrillveislu. Þau erum með svona assgoti fínar svalir til að grilla á, með ofur útsýni yfir flóðljós?
Ég er farin að gera tilraunir með sænskar grænubaunir.

Ef svo einkennilega vildi til að Aron frændi minn væri að lesa þennan póst þá óska ég honum innilega til hamingu með daginn.

Skrifað 7:49 e.h. af Sveinbjörgu

16.4.04

Sólarlandalestur

Mér finnst bara eins og ég búi í útlöndum núna :) Við hjóluðum niður í bæ til að bankast og láta stilla gírana á hjólinu mínu og ætli maður hafi ekki bara roðnað aðeins við verknaðinn. Það er nebblilega sól og 20 stiga hiti úti núna og allir í Stokkhólmi virðast vera í ágætasta sumarskapi. Bærinn fullur af ísætum og maður jafnvel farinn að sjá fólk klætt í skærlituðu fötin sem vellta útúr öllum HM búðunum hér í bæ. Erum komin inn aftur núna til þess eins að lesa, fúlt getur það nú verið. Við erum reyndar hálfpartinn að bíða eftir rigningu svo að tréin hérna geti farið að grænka, það er orðið svoltið langt síðan það ringdi síðast og það verður ábyggilega voða mikið fínna hér í kring þegar trén verða svoltið líflegri.
Ætla að þrífa af mér sólarhjólaskítinn og fara síðan að lesa um undraheima próteina. Eigið gleðilegan föstudag.

Skrifað 3:35 e.h. af Sveinbjörgu

14.4.04

Nafnasamkeppni

Ég hef ákveðið að efna til nafnasamkeppni fyrir ofurfallega súperhjólið mitt. Ef þið hafið skemmtilega hugmynd um hverning mætti nefna hjólið mitt þá má koma henni fyrir í athugasemdaboxinu hér að neðan. Í verðlaun fyrir fallegasta og hressasta nafnið mun ég svo hugsanlega gefa ísinn sem ég er að fara að gera tilraunir til að búa til núna. Það mætti kannski hafa það með að hjólið er jafn fallega rautt og súsúkkí kagginn minn var áður en ég eignaðist hann (og eins og hann er núna held ég:).

Skrifað 8:21 e.h. af Sveinbjörgu

13.4.04

Alheimsnetið komið í hús

Hver hefði trúað því að maður gæti glaðst svona mikið yfir því að fá þetta flæði upplýsinga beint heim í stofu. En það er orðið ljóst, við erum komin með internet. Erum bara búin að sakna þess í tæpar fjórar vikur. Ég gæti því gerst duglegri bloggari fyrir vikið :)
Við erum reyndar ekki búin að taka svo mikið eftir þessum skorti síðastliðna viku þar sem að mamman mín og pabbi komu til okkar síðasta þriðjudag og það var sko ekki neitt hangs á þeim. Við fórum á Vasasafnið, keyrðum í skerjagarðinum, skoðuðum að sjálfsögðu bæinn, skruppum til Uppsala of fórum svo í Sigtuna sem er elsti bæjarkjarni í Svíþjóð. Við keyrðum og keyrðum og keyrðum þannig að við erum nú eiginlega farin að sjá Stokkhólm í töluvert nýju ljósi, og svo eftir allan aksturinn þá eldaði pabbinn minn ofur máltíðir á hverju kvöldi þannig að ég hugsa að við Gummi höfum ekki lést neitt sérlega síðastliðna vikuna. Svo var geymslan okkar innréttuð með svaka hillum og mixi og ég græddi líka skrifborðsstól ásamt ýmsustu öðrum dýrgripum, takk fyrir okkur ! Nú eru þau bara skroppin til Gautaborgar og fara svo heim í kvöld þannig að okkur finnst nú eitthvað tómlegt hérna í holunni okkar.
Annars þá erum við í "upplestrarfríi" til 26. apríl þar sem að nú er omtentaperiod eða upptökuprófatími, og við erum víst svo miklar hetjur í Svíþjóðarlandinu að vera ekki á leið í a.m.k. eitt stykki slíkt. Erum því bara heima að læra (eins og svo oft áður) nema í þetta skiptið þá erum við eitthvað aum í rassalingunum. Við keyptum okkur nebblilega hjól í gær og erum búin að vera að gera tilraunir með þau. Við vorum fyrst svo græn að við héldum að við gætum tekið lestina í hjólabúðina og hjólað svo heim. En nei, við fengum hjólin í sitthvorum risakassanum og þurftum því að drusla honum með okkur í lestinni heim. Við vorum nú svo heppin að það var annar í páskum þannig að það voru fáir á ferðinni þannig að við vorum ekki fyrir neitt mjög mörgum. Erfiðast var svo að drusla kössunum úr lestinni og heim í hús. Gönguferðin sem tekur venjulega kannskir 7-8 mínútur varð allt í einu hálftíma löng og ég er komin með massaharðsperur ásamt því að vera með ofur massa upphandleggsvöðva. Í dag gerðum við svo tilraun til að hjóla uppí skóla til að kíkja á internetið (augljóslega fyrir tíma internetsins hér) og villtumst á einhverjum svaka hestastíg í skóginum hér fyrir norðan en komumst þó á áfangastað á endanum og fundum svo voðalega fína leið til baka. Við vorum eitthvað að spá í að fara og láta stilla gírana en ég held að kinnarnar meiki ekki að hjóla meira alveg strax, þ.a. það verður kannski geymt þangað til eftir helgi.
Ótrúlegt en satt þá ætla ég ekki að læra núna heldur að fara að þvo í ofurfínu tvättstugunni okkar.

Skrifað 3:39 e.h. af Sveinbjörgu

1.4.04

Blogga

Fólk gæti ímyndað sér að ég hafi misst fingurna þar sem að ég hef ekki bloggað í fullt marga daga. Málið er bara að við höfum ekki neitt alheimsnet í íbúðinni og við fáum það víst ekki fyrr en 15 apríl. Mikil og löng bið sem það hefur verið og verður. Það er reyndar eiginlega alveg komið sumar hérna núna, þannig að við getum næstum því bráðum farið að baða okkur á ströndinni sem er rétt hjá húsinu okkar.
Allvegana þá hefur nú ekki svo mikið drifið á okkar daga síðan ég bloggaði síðast. Við höfum bara mest verið að koma okkur fyrir og svo aðeins reynt að læra líka. Páskafríið byrjar jú víst í næstu viku og þá koma mamman mín og pabbi í heimsókn. Þá verður nú líklega eitthvað hressilegt gert.
Núna erum við að fara á ofurhressan fund um námið okkar og svo bara heim að læra með ekkert internet :( 14 dagar í internet !!!

Fyrir áhugasama þá er nýja húsfangið okkar:

Kungshamra 47, läg 002
170 70 Solna
Sverige

Skrifað 12:18 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt