29.2.04

Flug heim

Ég stend mikið í því þessa dagana að versla flugferðir á netinu. Við erum því núna komin með flug til uppáhaldseyjunnar minnar þann 29. maí. Þessi dagsetning er háð tvennu. Annarsvegar þá erum við ekki búin í prófum fyrr en 28. maí þannig að við komumst ekki fyrr heim. Hins vegar þá þarf Guðmundur að komast á Korn tónleika sem eru víst þann 30. maí. Ég hefði svo sem alveg þolað að vera hérna nokkra daga í viðbót, sérstaklega þar sem að sænsk sumur eiga það til að vera töluvert ágæt, en músikin kallar og mun Gumminn minn vonandi fá að njóta þeirra undirfögru og ljúfu tóna sem hljómsveit þessi er vön að gefa frá sér. Allavegana þá fljúgum við til Malmö og svo frá Köben heim til Íslands þannig að við þurfum ekki að fljúga með leiðindaflugfélaginu æslander. Húrra fyrir því.

Skrifað 6:41 e.h. af Sveinbjörgu

27.2.04

Flöskudagur kynnir: Sveinbjörg Sauður

Þá sé upp runninn 2. uppáhaldsdagurinn minn í vikunni, föstudagur. Planið er eins og svo ofuroft áður að lesa og hafa það svo huggó í kvöld. Tíminn framundan verður væntanlega frekar rólegur þar sem að það fer að styttast í próf. Síðasti formlegi skóladagurinn fyrir próftímabil er á mánudaginn og þá höfum við eina og hálfa viku til að læra fyrir hressa prófið sem er 11. mars.
Þar sem ég hef ótakmarkaða hæfileika á kjánaskapssviðinu þá tókst mér að panta flugmiða á netinu fyrir foreldrana mína á 500-földu verði. Ég var nebblilega að flýta mér svo mikið að panta, af því að ég hafði misst að fluginu 3. apríl þannig að ég ætlaði sko að bóka flugið 5. apríl, en ég gleymdi að taka forfallatryggingagjaldið. Miðarnir kostuðu því 500 kall á mann í staðinn fyrir 1 krónu. Lúði ég. Ánægjulegt samt að vita af þvi að þau fá nú örugglega krónuna sína til baka ef eitthvað kemur uppá...

Skrifað 12:24 e.h. af Sveinbjörgu

25.2.04

Almennileg verðlaun

Við fengum til baka skýrsluna okkar úr drasl tilrauninni sem við fórum í um daginn. Við vorum 4 að gera skýrslu og rumpuðum (hvað þýðir það eiginlega) henni af á einu fyrirhádegi. Við hefðum nú örugglega eytt aðeins meiri tíma í hana ef að við hefðum vitað að besta skýrslan fengi verðlaun. Kennarinn mætti nebblilega með ofurgrænan Systembolaget poka með 2 rauðvínsflöskum fyrir þá sem gerðu bestu skýrslunu. Þetta hefði verið fín gulrót til að gera skárri skýrslu ef maður hefði vitað af þessu fyrirfram, en hresst engu að síður hjá ofurnörda kennaranum okkar honum Birni.
Eftir súran skammtafræðifyrirlestrur þá fórum við og borguðum peninga í bankanum fyrir að borga peninga (það kostar nebblilega 50 kall sænskar að borga reikninga í bankanum) og svo fórum við og fjárfestum í hvorki meira né minna en litasjónvarpi. Þá getum við nú horft á Svía stunda kynmök í beinni útsendingu í raunveruleikasjónvarpinu Big Brother, þegar við flytjum í nýja húsið okkar. Mig dreymdi reyndar að það væri ekki byrjað að byggja blokkina, en smiðurinn hafði ekkert áhyggjur af því að þetta væri svona einingahús sem að tæki bara einn dag að byggja (smá bjartsýni). Nú eru allavegana bara 23 dagar í flutninga og ég hlakka SVO til !

Skrifað 4:26 e.h. af Sveinbjörgu

24.2.04

Nýtt flugbolag

Ég vil benda áhugasömum á nýja uppáhalds flugfélagið mitt sem að var verið að stofna núna um daginn.

Skrifað 3:59 e.h. af Sveinbjörgu

23.2.04

Semlur

Miðað við umræðuna á alheimsnetinu þá virðist maður þurfa að kíkja bráðlega til læknisins. Ég þarf að komast í samband við þetta skyggna fólk í fyrrum Bessastaðahreppi til að vita hvenær rétti tíminn sé. En annars þá þykir mér leiðinlegt að segja frá því að ég hef sjálf ekki orðið vör við neinn Stefán Nikulás á þessum bæ:)

Skemmtilegt að bæta því samt við að Björn var nú svo myndalegur að baka fyrir okkur í morgun þannig að þegar við komum í skólann þá bauð hann upp á þessar dýrindis sænsku bolludagsbollur, maður ætti kannski bara að fá uppskriftina hjá honum.

Skrifað 5:36 e.h. af Sveinbjörgu

22.2.04

Óviðburðarríki

Það hefur nú ekki verið mikið gert spennandi á þessu heimili undanfarna daga. Við höfum nú bara lært og lummast og ákveðnir ónefndir aðilar hafa aðeins verið að nördast. Við fengum nú samt ægilega hressa heimsókn frá Vottum Jehóva áðan, þau voru ægilega spennt fyrir því að fara til Íslands og fræða okkur um eitthvað rugl. Ég þarf nú víst eitthvað að fara að æfa mig í að vera dónaleg og reka svona fólk í burtu. Mér finnst nebblilega voðalega leiðinlegt svona uppáþrengsla rugl, best að ég sendi Gumma til dyra næst.

Skrifað 5:17 e.h. af Sveinbjörgu

19.2.04

1 mánuður

Það er bara einn mánuður þangað til að við fáum nýja húsið!!! ég vildi að það væru bara 28 dagar í febrúar.

Skrifað 5:01 e.h. af Sveinbjörgu

Sjálflýsandi saurgerlar

Ég get stolt sagt frá því að genabreytingin okkar á litlu sætu gerlunum okkar virkaði bara ansi vel. Sumur urðu svo fallega flúorgrænir og aðrir æðislega rauðir. Bláa genabreytingin tókst nú samt ekki svo vel þar sem að þeir gerlar urðu bara hálf grænir líka. Ég held samt að það hafi ekki verið okkur að kenna !Það er nú allavegana gott fyrir ykkur að vita að við séum að gera svona mikilvægar tilraunir hér í Svíalandi sem að gætu jafnvel leitt til heimsfriðar. Ég ætti nú kannski ekki að segja frá þessu, en gerlarnir sem döfnuðu hvað best á petrískálinni hjá okkur voru þeir sem að ég spýtti þanngað, þannig að ég er að spá í að borða bara sótthreinsandi fæðu í framtíðinni....

Skrifað 1:37 e.h. af Sveinbjörgu

16.2.04

Kókósbolluöfund og saurgerlar

Ég held svei mér þá að Guðmundur hafi skammast sín fyrir mig í lestinni áðan. Við vorum bæði eitthvað æðislega spennt fyrir ofurgóðu kókósbollunegrakossunum sem að við Beta fundum í bæjarferðinni okkar í síðustu viku. Við fóru því úr lestinni áðan á aðallestarstöðinni og ég skaust inní matvöruverslunina þar (af því að ég vissi að þetta fengist þar) og keypti sitt hvorn kassann. Það sem Gummi skammaðist sín svo mikið fyrir var að ég setti kassana ekki í poka þannig að það sást hvað við vorum mikil átvögl. Honum fannst nú eitthvað asnalegt hvað allir voru að hneykslast á græðgi minni í lestinni þannig að hann tuðaði yfir þessu hálfa leiðina heim. Ég held nú bara að fólkið hafi öfundað mig af þessum dýrindis kræsingum sem að ég bar undir hendinni og ég er jafnvel ekki frá því að gamla kona sem var við hliðina á mér hafi verið farin að slefa. Allavegana, þá hefur hálfur Stokkhólmur misst allt matarálit á mér (að Gumma mati) á meðan ég og átvaglið mitt sitjum og njótum smaskens kókosbollanna okkar.

Á morgun förum við svo í ægilega hressan verklegan tíma þar sem að við munum genabreyta saurgerlum..... nánar síðar!

Skrifað 5:01 e.h. af Sveinbjörgu

14.2.04

Alla hjärtans dag

Í dag er valentínusardagurinn og við munum væntalega fagna honum á viðeigandi hátt; með því að reikna fram á kvöld.
Gærdagurinn var nú örlítið meira spennandi en dagarnir á undan honum (þá fórum við ekki út úr húsi nema til að kaupa mjólk í kaffið). Við smelltum okkur í skólann til að skrifa eins og eina skýrslu, fóru heim og þrifum og svo sáum við herra Tom leika japanskan bardagamann í síðasta samúræjanum. Sem sagt fínn föstudagur sem verður fylgt eftir með hressum lærdóms laugardegi...

Skrifað 10:14 f.h. af Sveinbjörgu

10.2.04

Labbasmabb

Þá erum við bara búin með eitt af ofurmörgum löbbum vetrarins. Við vorum að mæla í dag eitthvað sem að ég skildi ekki, og þá komu kennararnir og útskýrðu allt í kontrast við hvorn annan. Á meðan við vorum að mæla eitthvað ofurhresst ljós, þá stóðu þeir yfir okkur og skildu ekkert í því hvað við værum að gera, útskýrðu einhvern helvítis helling og sögðu okkur svo að gera nákvæmlega það sem við vorum að gera áður. Lokaorð: súr æfing. Eini ljósi punkturinn var sá að annar kennarinn kom með kaffi fyrir alla, þannig að við gátum nú glaðst yfir einhverju!

Skrifað 6:33 e.h. af Sveinbjörgu

9.2.04

Lestrarleti

Nú eru Jón Grétar og Beta á leiðinni heim til Íslands. Þau ætluðu að vera fram á laugardagsmorgun en plönin breyttust eitthvað aðeins þannig að þau fóru héðan klukkan 7 í morgun. Það var nú bara svoltið gaman að hafa þau hér, þó að það hafi nú kannski aðeins bitnað á lærdómnum :)
Í stað þess að túristast þá kynntu þau sér gagnleg fyrirbæri. T.d tékkuðu þau á aðstöðunum í skólum hér í bæ, kynntu sér híbýli Íslendinganna í KTH og svo það mikilvægasta, þau þræddu matvöruverslanir kaupstaðarinn til að sjá hvað væri nú ætt í þessu landi, maður er jú víst það sem maður borðar.
Núna tekur væntalega við ofurlærdóms vika þar sem að við þurfum víst eitthvað að bæta upp leti síðustu daga.

Skrifað 10:28 f.h. af Sveinbjörgu

4.2.04

Afmæli

Í dag á Gummi afmæli, húrra húrra húrra. Hann er orðinn alveg 24 ára gamall. Enn er ekki ákveðið hvernig haldið verður upp á daginn, en skemmtilegt að segja frá því að hann fær afmælisgesti alla leið frá Íslandi. Jón Grétar og Beta eru nebblilega að koma í heimsókn til Stokkhólms í kvöld og verða í fáeina daga. Það verður örugglega hægt að finna eitthvað hresst að gera (annað en að læra:) á meðan þau eru í heimsókn. Núna væri nú kannski ráð að ég myndi gera eins og litla afmælisköku handa stráknum, fyrst að hann var svo myndalegur að gera eina fyrir mig.

Skrifað 9:32 f.h. af Sveinbjörgu

1.2.04

Afmælisveisla og matarboð

Helgin var að þessu sinni óvenju atburðarík. Á föstudagskvöldið var afmælispartý hjá Sverri sem er verkfræðiskiptinemi hér í KTH. Við vorum voðalega týbískir Íslendingar og töluðum bara við Íslendingana í boðinu . Hann býr einmitt í Kungshamra þannig að við ætluðum að nýta okkur tækifærið þegar við lögðum af stað heim til að skoða nýju íbúðina okkar, en þá var hún bara ennþá í byggingarplastinu þannig að við sáum bara eiginlega ekki neitt nema hina frábæru staðsetningu :) Á laugardaginn buðum við svo Reyni frænda í íslenskt lambalæri með "alvöru" bernessósu með innfluttum bernesessens. Inn á milli þessara atburða var að sjálfsögðu reynt að læra en mystískir staðir eins og rúmfatalagerinn voru meira aðlaðandi en það á tímabili. Nú er bara hress vika framundan, pökkuð af hressum fyrilestrum og hressum fyrirlesurum. Áfram mánudagar!!!

Skrifað 8:55 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt