29.1.04

Nágrannar prinsessunnar

Í morgun gerðist það formlega. Við undirrituðum leigusamning sem gerir okkur að nágrönnum systur kóngsins. Við vorum sem sagt að fá íbúð á "stúdentagörðunum" hér í bæ. Hér má klikka til að sjá teikningu af íbúðinni. Okkar snýr reyndar aðeins öðruvísi en er annars eins. Við fáum íbúðina meira að segja beint úr kassanum. Það er bara í þessum rituðu orðum verið að henda henni upp og við fáum lyklana að henni 19. mars. Þangað til verðum við bara í góðu yfirlæti í innflytjendahverfinu okkar Skarpnäck.
Það verður nú ægilega gaman að komast í hverfi sem er nær skólunum og inniheldur meira af fólki á okkar aldri. Eina vandamálið er að nú þurfum við að mubblera nýju íbúðina þannig að það væri kannski ráð að kynna sér janúarútsölunar?

Skrifað 10:52 e.h. af Sveinbjörgu

28.1.04

Fánadagur

Í dag er flaggað. Kannski það sé til að fagna því að Björninn okkar byrjaði að vefdagbókarsetja líf sitt í gær, eða kannski vegna þess að kóngurinn hérna á nafnadag í dag. Hver veit?

Skrifað 6:11 e.h. af Sveinbjörgu

27.1.04

Polyglot

Mér leiðist voðalega þessi ráðstefna um hvernig hindra megi þjóðarmorð. Hún er búin að valda ægilega miklum umferðartöfum hér í bænum þannig að strætóarnir annað hvort koma ekki að sækja mann eða rétt ná að drattast áfram þannig að þeir eru tæpan klukkutíma að keyra leið sem þeir eiga að vera 20 mínútur að fara. Það er þá bara eins gott að þess bévítans ráðstefna skili einhverjum ofsafengnum árangri, því annars höfum við þjáðst í frostinu hérna til einskis. Ég get reyndar sem betur fer tekið gleði mína upp að nýju í morgun þegar herra Kofi og félagar halda á brott og strætóinn minn fer að ganga eðlilega. Þá getum við farið að mæta á réttum tíma í fjöltyngda fyrirlestra. Við vorum nebblilega í gær í frumufyrirlestri sem var á finnlandssænsku og í dag var hann á mjög ítalskri ensku og í næstu viku verður hann svo á sænsku :) Prófið í þessum kúrsi í vor verður svo bara á sænsku, en samkvæmt einhverjum skondnum reglum þá má fólk frá norðurlöndunum skrifa á sínu tungumáli, þannig að við ættum að mega skrifa á íslensku... eina vandamálið væri að sjálfsögðu það að enginn gæti farið yfir það, en það þyrfti kannski ekki að vera neitt verra.

Skrifað 6:48 e.h. af Sveinbjörgu

25.1.04

Helgin

Þá sé helgin bara að verða búin. Á föstudaginn buðum við Kidda, Völu og Birninum í ægilega prumpulegan kjúkling með voðalega góðri sósu. Í gær var mér síðan svoltið illt í hárinu, þannig að ég gerði lítið annað en að sofa, horfa á sjónvarp, borða popp og svo nýuppgötvaða þynnildismatinn minn: sænskar kjötbollur og makkarónur. Mér þykir leiðinlegt að hryggja ákveðinn lesanda með þessum "hræðilegu" matarvenjum, en það er bara svo langt að fara á makkdónalds á slíkum stundum sem í gær. Að sjálfsögðu er svo planið í dag að reikna og gera svo hinar ægilega hressu ritgerð á sænsku sem við eigum að skila á morgun. Hún þarf að vera heil 100- 200 orð, þannig að það er ekki seinna vænna en að byrja bara núna :)

Skrifað 10:06 f.h. af Sveinbjörgu

21.1.04

Um hið tæknivædda eldhús

Í gær fórum við eins og áður sagði í leiðangur. Byrjuðum á því að reyna að redda námslánamálum sem að tókst reyndar ekki alveg beint þannig að Gummi er að skrifa ægilega fallegt bréf um tungumálaörðuleikana sem ollu því að við tókum bara 16 einingar en ekki 20. Reyndar var það námsráðgjafinn okkar sem ráðlagði okkur að taka bara 16 einingar vegna tungumálsins samt var meirihlutinn af kúrsunum okkar á ensku :)
Næst lá leið okkar í Elgiganten, sem er sænska Elkó, til þess að ná í hina margumtöluðu kaffigræju í viðgerð. Við mættum, gaurinn sagði bara að það væri langt um liðið, varð hálf vandræðalegur, hvarf svo í 10 mínútur og kom aftur og bauð okkur nýja kaffigræju þar sem að þeir væru búnir að TÝNA gömlu könnunni. Við vorum nú ekki neitt sérlega ósátt með að græða nýja könnu þó að hin hafi nú örugglega haft sál... Við eignuðumst líka nýjan ofur-tæknilegan og fallegan örbylgjuofn sem er grill í leiðinni. Við fengum hann í jólagjöf frá mömmu og pabba hans Gumma og völdum hann í gær, Takk fyrir okkur. Það verður sem sagt örbylgjuhitaður matur á borðum hér næstu vikurnar og svo líka popp ; ) Við vorum held ég hálf kjánaleg með tvo kassa í lestinni í gær, sérstaklega þar sem að annar þeirra var 15 kíló.

Í dag var aftur 4 tíma skammtafræðitími og þess vegna erum við með töluvert steikta (og örugglega stærri) heila þetta kvöldið. Þá er ráð að fá sér makkarónur með örbylgjuhituður sænskum kjötbollum í kvöldmat og láta fara vel um sig til að geta nú lesið eitthvað af viti í fyrramálið.

Skrifað 8:32 e.h. af Sveinbjörgu

19.1.04

Fyrsti skóladagurinn

Fjúff púff, lengsti dagur í heimi er loksins búinn. Við byrjuðum á því að taka strætó í upplestur í frumulíffræði í Karolinska Institutinu. Þar voru nöfnin okkar lesin upp og við máttum svo fara, hálf tilgangslaus ferð það. Þá næst fórum við í lest uppí Kista þar sem við fórum í fjögurra klukkutíma kvant-mekanik fyrirlestur hjá ægilega hressum dúdda sem var með í vörinni allan tímann. Við stungum af aðeins fyrr til að taka lestina í KTH í bænum til þess að komast í fjögurra tíma sænskufyrirlestur. Við erum nú loksins komin heim eftir að hafa játað köngulóahræðslu mína fyrir Ítala á sænsku :) Svoltið langur og strembinn en annars ágætur dagur.
Það var samt svoltið skondið að mæta í kvant-mekanik fyrirlesturinn. Allir krakkarnir þar inni eru saman í bekk og svo birtumst við allt í einu og það var svoltið horft á okkur eins og geimverur. Þau tóku nú samt ágætleag á móti okkur og sumir gerðust meira að segja svo formlegir að taka í höndina á okkur og allt... kannski maður fari bara að kynnast einhverjum Svíum í Svíalandi ;)
Morgundagurinn fer svo í skólabókakaup og aðrar útréttingar þar sem að við erum í skólafríi á morgun. Svo þarf ég líka að vakna snemma til að geta gert tilraun til að fá sista minuten íbúð á stúdentagörðunum í Kungshamra. Vinsamlegast krossið fingurna um klukkan 9 (að sænskum tíma) í fyrramálið svo að betur gangi !

Skrifað 10:57 e.h. af Sveinbjörgu

18.1.04

Jóla"fríið" búið

Þá séum við komin aftur heim í holuna okkar í svíalandi. Það er nú svo sem ekki mikill munur á Íslandi og Svíþjóð þessa dagana, snjór hálka og kuldi. Við erum aðallega búin að vera að koma okkur fyrir aftur og fylla ísskápinn og svo á morgun hefst hinn ofurhressi skóli þar sem að Íslendingar verða til sýnis :)
Ég ætla núna að fara að heilsa uppá Óla lokbrá, við erum eitthvað tuskuleg eftir daginn og snemmvöknunina, góða nótt fólk.

Skrifað 9:17 e.h. af Sveinbjörgu

7.1.04

Lengt jólafrí

Samkvæmt upphaflegum plönum þá hefðum við átt að vera að fljúga heim (til Stokkhólms) í dag, en miðunum okkar var seinkað þannig að við verðum á Íslandi til 18.janúar. Þetta blogg verður því í frí þangað til, ég ætlaði að vera búin að skrifa þennan gáfulega texta fyrr en við vorum bara að fá internetið okkar aftur í gær.
Blebbs þangað til.

Skrifað 7:04 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt