19.12.03

Jólafrí

Eina sem ég get sagt núna mun vera Húrra. Við erum núna komin í jólafrí þar sem að við kláruðum seinna prófið í morgun. Því var svo fagnað með þrammi um bæinn í leit að jólagjöfum sem skilaði þeim árangri einum að ég er þreytt í löppunum. Næsta mál á dagskrá er að þrífa íbúðina svo að hún verði ekki prófaskítug þegar við komum út aftur, pakka og fara svo á barinn og fá sér pizzu og bjór.
Við komum svo heim á morgun!!! og ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til. Þeim sem hafa áhuga á að vera í móttökunefnd er bent á að við lendum um hálf 4 á íslenskum tíma á Keflavíkurflugvelli. Og svo ef það skildi hafa farið framhjá einhverjum, þá hlakka ég svo til að fara heim.

Skrifað 6:23 e.h. af Sveinbjörgu

17.12.03

3 dagar

Enn hlökkum við til heimferðar. Nú eru ekki nema þrír dagar þar til við ökum til Íslands. Tveir læridagar og einn próf/verslunar/þrifa/pökkunardagur og svo á laugardaginn förum við bara heim. Við kláruðum í gær örbylgjuverkfræðiprófið okkar og gekk það held ég bara ágætlega. Eitt sem var svoltið skondið við þetta próf var að í stofunni okkar voru ekki nema 3 Svíar, þ.a. að það fór enginn út í reykingapásu. Annað sem var eiginlega skondnara var að indverjinn sem sat við hliðina á Gumma var að reyna að horfa á prófið hans allan tímann. Hann gerðist meira að segja svo grófur að biðja hann um reglustiku sem að hann notaði svo ekki neitt en glápti allan tímann á blöðin hans. Grey Gummi var farinn að fela lausnirnar sínar og leggja alltaf blöð yfir allt sem að hann var búinn með til að skrýtni gaurinn gæti ekki kóperað svörin hans :)
Eftir þetta 5 tíma próf fórum við bara heim og dóum. Í dag verður, eins og fólk hefur kannski getið sér til um, lært og látið sig dreyma um næsta laugardag.

Skrifað 8:38 f.h. af Sveinbjörgu

13.12.03

Vika vei!

Ég er svo mikið í því núna að hlakka til heimferðar. Nú er ekki nema vika þar til að við fljúgum alla leið til Íslands. Þó að Svíar séu ægilega mikið jólafólk og hér sé voðalega mikill jólafílíngur þá langar mig voðalega mikið í íslenskan jólafílíng. Við höfum gert heiðarlega tilraun til að hlusta á íslensk jólalög á Rás 2 á netinu og það hefur nú bara aukið á heimferðar tilhlökkunina. Ég hlakka svo til að fara heim!
Hér sé nú ekki mikið annað gert en að læra, borða og sofa þar sem að fyrsta prófið okkar er núna á þriðjudaginn, og svo er síðasta prófið á föstudaginn.

Skrifað 11:15 f.h. af Sveinbjörgu

11.12.03

Bíóhamfarir

Ég er farin að hallast á þá kenningu að okkur sé ekki ætlað að fara í bíó í þessu landi. Í gærkvöldi tókum við okkur frí frá lærdómi til að hitta Nemo, mættum í bíóið klukkan 8 til að kaupa miða á myndina sem byrjaði 9 og fórum svo á pizza hut (sem er í sömu byggingu og bíóið) og fengum okkur að borða. Þegar við sátum og átum tókum við eftir fullt af bláum ljósum fyrir utan en kipptum okkur svo sem ekkert upp við það. Fórum svo í bíóið 3 mínútur í 9 og þá var anddyrið troðfullt af fólki. Þá hafði kviknað í bíóinu og allt fólkið sem var inni var rekið út og stóð þarna í hrúgu og beið annars vegar eftir að fá að ná í dótið sitt og hins vegar eftir því að fá endurgreiddan miðann. Við vorum nú alls ekki viss um að við kæmumst í bíóið okkar, en betur fór en á horfðist og við hittum, eftir stutta seinkun, Nemó. Ég skil samt alveg af hverju hún er bönnuðu innan 7 ára, það var fullt af hræðilegum atriðum í þessari annars hressu teiknimynd. Það getur reyndar eitthvað tengst því að ég hef töluvert mikla fóbíu gagnvart stóru blái tómi , eins og til dæmis hafinu......


Skrifað 11:01 f.h. af Sveinbjörgu

9.12.03

Antagningsmöte

Fórum í gær á móttökufund fyrir liðið sem hefur verið tekið inn í Biomedicinsk teknik deildina hér í KTH. Fengum ægilega fínar samlokur og kók og svo var eiginlega bara verið að benda okkur á hvað við værum búin að velja sniðugt nám... Við erum því núna orðin hálfpartinn stúdentar í Karolinska Institutinu líka. Það þýðir að eftir áramót mun ferðum okkar milli skóla fjölga þar sem að við verðum í tímum á 3 stöðum í borginni. Spurning um að verða sér útum hjól og hressa lærvöðva.
Nú er bara vika í próf þannig að við munum ábyggilega gera lítið annað en að reikna og lesa og teikna næstu dagana og svo eru bara 11 dagar í að ég komi heim til Íslands. JÚHÚ.

Skrifað 3:54 e.h. af Sveinbjörgu

6.12.03

Namminamm

Við elduðum í gærkvöldi annað lærið sem að okkur áskotnaðist í í síðustu viku. Þrátt fyrir að hvorugt okkar hafi eldað læri í ofni áður þá heppnaðist það bara ofur vel þökk sé Helgu Sigurðardóttur :) Mér tókst meira að segja að gera hálf brúnaðar kartöflur með en því miður þá vantar einkennilegustu hluti í matvöruverslanir hér í Stokkhólmi. Ég fékk til dæmis hvergi bernesessens (eða hvernig sem að það er skrifað) til að búa til feitubollusósu fyrir matargestina þannig að þeir fengu bara pakkasull.
Matargestirnir voru, sem og svo oft áður, Björn og Kiddi og svo buðum við Gunna Mill í borgina til okkar. Ég held að þeim hafi þótt maturinn alveg ágætur þar sem að lærið var étið upp til agna og svo höfðu þeir ekki lyst á ís á eftir.
Eftir matinn spiluðum við svo púl á barnum og Björn bauð gestum þar upp á harðfisk. Hann mátti ekki bjóða uppá brennivínið þar sem að barinn hefur ekki leyfi til að selja sterk vín þannig að strákarnir tóku bara staup með uppáhaldsbarþjóninum sínum og gáfu honum svo pelann. Þegar barnum lokaði klukkan 11 þá fór ég heim meðan restin af liðinu ákvað að kynna sér næturlíf miðborgarinnar. Það gekk ekki betur en svo að þeim var ekki hleypt inn á einn staðinn sökum klæðnaðar og á annan stað vegna aldurs!!! Þeir komu því bara heim með lestinni stuttu seinna.

Í dag erum við nú búin að standa okkur eins og hetjur. Fara í bæinn í versta veðrinu í Svíþjóð síðan við komum, til að kaupa dúk og láta laga kaffigræjuna okkar. Erum nú að spá í að lummast heima það sem eftir er dags og hefja svo próflestur á morgun.

Skrifað 5:06 e.h. af Sveinbjörgu

4.12.03

Flutningar

Nú er Björn bara að fara að flytja frá okkur. Það er að segja hann er að flytja úr hverfinu. Hann var nebblilega svo lukkulegur að komast inn á stúdentagarða. Við Gummi verðum bara áfram hér í langtíburstann þangað til við komumst að á görðunum. Það verður því vonandi innfluttningsparty 19.desember þegar við klárum prófin???

Skrifað 3:40 e.h. af Sveinbjörgu

2.12.03

Vísó

Við smelltum okkur í fyrstu "vísindaferð" vetrarins. Hún var klukkan 9:00 í morgun og fórum við að heimsækja hið hressa fyrirtæki Saab. Veitingarnar voru hálft rúnstykki á mann og sódavatn:) Kannski ekki alveg sama pæling og í vísindaferðunum í verkfræðinni heima en þetta var engu að síður frekar áhugavert. Ég komst til dæmis að því að Saab framleiðir ekki bíla, heldur framleiðir general motors saab bílana. Saab er aftur á móti í því að þróa allskonar radartæknigræjur, aðallega í hernaðarlegum tilgangi. Þeir eru líka í því að skoða radartækni varðandi bílaöryggi og þess háttar. Mér fannst eiginlega svalast hugmyndin um að bíllinn minn gæti fattað hvernig bílastæðið mitt lægi og lagt í það fyrir mig... en það var víst bara hugmynd, ábyggilega langt í að hún verði að veruleika. En þetta var sem sagt frekar róleg en sniðug vísindaferð þar sem að enginn klappaði fyrir neinum fyrirlesara og ég sofnaði óvart undir fyrirlestrinum hjá loftnetadoktornum.

Skrifað 10:25 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt