30.11.03

Dekurdagar

Nú er búin matar- labb- og menningarhelgin mikla. Hún hófst á fimmtudaginn þegar foreldrar Gumma komu í heimsókn til okkar í Skarpnäck. Þau komu með alls kyns skemmtilega hluti eins og tvö íslensk lambalæri, fullt af harðfiski, fullt af súkkulaði, séð og heyrt svo að við gætum fylgst með fræga fólkinu heima og svo pela af svarta dauða!
Við byrjuðum á því að skilja þau eftir í miðborg Stokkhólms af því að við þurftum víst að skreppa í skólann. Við hittum þau svo niðri í bæ og þau buðu okkur út að borða á voðalega fínum veitingastað í Gamla Stan. Á föstudeginum skruppu við í bæjarferð þar sem að Gummi varð sér úti um ný gleraugu og við eignuðumst gríðarlega flott beygluglös. Í gamla bænum var svo verið að setja upp pínu ponsu jólamarkað þar sem hægt var meðal annars hægt að fá sænskt jólagóðgæti eins og elgs- og hreindýrapylsur. Um kvöldið var okkur aftur boðið út að borða, og þá á Prinsinn sem er víst voðalega frægur staður.
Í gær fórum við svo og skoðuðum Vasasafnið sem er töluvert stórfenglegt og eftir allt of stuttan tíma þar inni fórum við svo á jólamarkarð sem var í Skansen. Jólamarkaðurinn þar hefur verið haldinn í 100 ár og það var svoltil stemmning að fara þarna og skoða sænska jólamenningu. Við enduðum daginn á að taka lestina til Allans, sem er gamall skólafélagi pabba hans Gumma. Þar beið okkar þessi svaka fína veisla. Eftir matinn skoðuðum við svo ströndina sem að er 200m frá húsinu hans. Ég held að þrátt fyrir að við höfum ekki séð mikið í skoðunarferðinni sökum myrkurs þá sé Gummi búinn að ákveða að þarna ætli hann að eiga sumarhús þegar hann verður stór.
Þetta var sem sagt alveg frábær helgi og nú tekur skólinn bara aftur við.... Takk kærlega fyrir okkur.

Skrifað 10:59 e.h. af Sveinbjörgu

25.11.03

Krípí

Svoltið óhugnalegt að segja frá því að ástæðan fyrir því að lestin okkar var í rugli í gær er sú að einhver dó á sporinu milli Skanstull og Medborgarplatsen. Við náðum því reyndar ekki hvort að þessi einstaklingur dó í lest eða hvort að hann var að labba yfir sporið og dó á leiðinni (það væri nú frekar súrt atvik samt). Það var allavegana ekki keyrt á hann því þá hefði það nú verið forsíðufrétt í morgun og örugglega á morgun líka.

Skemmtilegra umfjöllunarefni dagsins í dag mun nú samt vera að það eru bara 2 dagar þar til Gumma mamma og pabbi koma í heimsókn í höllina okkar. Hér sé því mikil tilhlökkun og að sama skapi lærdómur til að við getum tekið okkur skólafrí á meðan þau eru hér í sveitinn hjá okkur.

Skrifað 8:46 e.h. af Sveinbjörgu

24.11.03

Umferðaróhapp

Í morgun vöknuðum við samviskusamlega klukkan 8:30 til þess að komast í fyrirlestur sem var klukkan 10. Björn kom voðalega tímanlega við hjá okkur þannig að við mættum (að mér fannst) allt of snemma á lestarstöðina. Þegar þangað var komið breyttist skoðun mín þar sem að lestin gekk bara þriðjung af leiðinni sem við þurftum að fara vegna einhverrar lestarólukku inni í bæ. Þegar við komust á endastöð þessarar lestar þá þurftum við að labba smá spöl til að komast í strætó sem átti að koma okkur á leiðarenda. Það komu svo ekki nema 2 strætóar og við rétt náðum að troða okkur inní harmonikkustrætóinn og ég held að ég hafi komist að því hvernig vakúmpökkuðum kjötstykkjum líður. Við komumst reyndar á leiðarenda um 30 mínútum seinna en áætlað var og þurftum að hlaupa upp alla löngu brekkuna hjá KTH til að komast ekki mjög mikið seint í tíma.
Við vorum þess vegna mjög hamingjusöm þegar lestin fór svo með okkur alla leið heim eftir fyrirlestur og sprikl. Til að bæta á gleðina þá fengum við bréf um að við hefðum verið tekin inn í BMT-deildina í skólanum (ég er alveg hætt að skilja systemið hérna) en það er sem sagt biomedicinsk-teknik deildin sem að ME (mikroelectronic) línan getur fylgt eftir grunnnám. Við vorum reyndar bara að komast að því áðan að við værum að fara í einhverja svona spes deild og að það væru bara 50 teknir inn á ári þannig að við erum nú bara nokkuð ánægð með okkur.

Ég get núna hætt að gráta kaffibollann sem var brotinn á föstudaginn þar sem að kaffigræjan mín er kominn á einhverskonar mótþróaskeið og gefur ekki neitt kaffi :( Hún er kannski bara áð mótmæla ofnotkuninni síðustu daga...

Skrifað 4:20 e.h. af Sveinbjörgu

21.11.03

Herra klaufi

Ég sit núna grátandi við tölvuna mína af því að klaufabárður heimilisins var að brjóta annan af uppáhaldsbollunum mínum. Nei, kannski ekki alveg svo dramatísk viðbrögð en nú á ég ekki lengur ægilega fína appelsínugula expressóbolla sem ég fékk í útskriftargjöf í vor. Núna á ég bara rauðan einmanna expressóbolla:(
Í kvöld munum við nú samt fagna föstudagskvöldi á mjög rólegan hátt með því að horfa á Rambó í imbanum og súpa kannski á pínu hvítum rússa.

Skrifað 7:38 e.h. af Sveinbjörgu

19.11.03

læra best

Hér sé lítið annað gert í skammdeginu en að lesa hinar ægilega hressu skólabækur. Nú er farið að styttast í próf og þá þarf maður nú víst að vera duglegur að læra. Við fórum reyndar í verklegan tíma í örbylgjuverkfræði í gær og gaurinn sem sá um tímann var Indverji sem talaði voðalega vonda ensku. Svo andaði hann líka alveg eins og gamla fólkið sem situr yfir prófunum í Háskóla Íslands, við höfðum áhyggjur á tímabili að hann væri bara að gefa upp öndina grey maðurinn. Skemmtilegt samt við verklega tíma hér er að þeir taka ekki 8 tíma í einu, kennarinn er nálægt allan tímann, það erum bara 2 hópar í einu þannig að maður fær einhverja athygli frá kennaranum og svo þarf maður ekki að skila ógeðs skýrslum úr þessu (Svoltið annað en í HÍ). Á morgun er svo planið mjög svipað spennandi og í gær: læra og lesa og reikna. Húrra fyrir því.
Nú ætla ég að fara að hjúkra sjúllanum á heimilinu þar sem að Gummi græddi svona yndislega hálsbólgupest um helgina:(

Skrifað 9:35 e.h. af Sveinbjörgu

16.11.03

Í gærkvöldi ákváðum við að smella okkur í bíó. Við vorum sannir Svíar og bókuðum sætin okkar og borguðum miðana á internetinu . Hálftíma áður en bíóið byrjaði þá mættum við á staðinn til að ná í miðana og hitta Kidda. Fyrst við vorum mætt svona snemma þá dundaði ég mér við að versla í sjoppunni og við vorum ekki neitt að stressa okkur á þessu , við áttum jú fast sæti í salnum. Loksins þegar við ákváðum að koma okkur inn í salinn 10 mínútum áður en myndirn byrjaði þá bendir miðaafrífarinn okkur á það að við keyptum miða í vitlaust bíó. Við hlupum þess vegna útí tunnelbanann, sem birtist akkúrat þegar við mættum, fór beint með okkur í rétt bíó og við náðum að komast í sætin okkar áður en auglýsingarnar byrjuðu. Þó að ég sé greinilega algjörlega hæfileikalaus í að skilja staðsetningar og tímasetningar (eins og má sjá á fyrri skrifum) þá komumst við nú samt í bíó. Við vorum reyndar að velta því fyrir okkur hvort að það væri möguleiki á því að vera í kringlubíói og komast að því að maður hefur 10 mínútur til að komast með almenningssamgöngum uppí Álfabakka... Ég hugsa að það væri svoltið hæpið.

Skrifað 11:06 f.h. af Sveinbjörgu

15.11.03

Merkilegur dagur

Í Danmörku var haldið uppá J-daginn síðasta föstudag. Hér er jólabjórinn svo sem alveg kominn í systembolaget en það var ekki haldið neitt sérstaklega uppá það. Í staðinn héldu Svíar í gær uppá ostakökudaginn, svoltið til merkis um það hvað Svíjar vilja virðast drekka lítið:)

Skrifað 9:29 f.h. af Sveinbjörgu

11.11.03

Dudmundur

Í gær tókum við okkur til og keyptum loksins leikfimikort. Við erum því byrjuð að hreyfa okkur í KTH-höllinni. Við keyptum reyndar bara kort sem gildir fyrir 14:00 á daginn af því að það var svo ægilega ódýrt en í staðinn þá komum við heim í ofurformi (hóst hóst). Gummi græddi reyndar nýtt nafn í leikfiminni, daman sem að útbjó kortin okkar kann ekki alveg muninn á G og D eða þá er hún mjög svo léleg að vélrita. Þess vegna er leikfimi nafnið hans orði Dudmundur. KTH-höllin er líkamsræktarstöð/íþróttahús á KTH-campusnum þannig að það er voða stutt að fara þegar maður þarf að mæta á annað borð í skólann. Við höfum því enga góða afsökun fyrir því að sleppa því að fara og sprikkla smá. Ef við ætlum svo í sprikkltíma, spinnig eða þess háttar þá verður maður að bóka tímann fyrir fram. Það þykir mér mjög sænskt þar sem að Svíar virðast ekki geta ákveðið neitt með mjög stuttum fyrirvara og eru oftast með dagbækurnar sínar yfirfullar.

Skrifað 5:25 e.h. af Sveinbjörgu

Gleði og gleði

Skemmtilegt að segja frá því að allir í Íslendingabekknum í Kista náðu hinu geysilega hressa læknitækniprófi. Einkunnirnar hér eru voðalega asnalegar, gefnar á bilinu 3-5 og ef fólk fellur þá færð það U. Manni finnst 5 ekki hljóma eins og neitt frábær einkunn en það er nú samt víst hæsta einkunnin sem er gefin. Og þó að fólk fái hæstu einkun þá er það kannski ekki neitt endilega að fá 10, eða einu sinni einkunn nálægt 10. Mjög skýtið einkunnakerfi.
Á þessu heimili munum við fagna þessum gleðifregnum með góðu kaffi og frekari lærdómi :)

Skrifað 5:20 e.h. af Sveinbjörgu

9.11.03

Ofur hress sunnudagur

Í gærkvöldi tókum við okkur til og skelltum okkur í bæjarferð. Ég, Gummi, Björn og Kiddi tókum lestina niður í Gamla Stan og eftir að ég hafði fest hælana á skónum mínum ofaní rist þrisvar sinnum (alveg eins og rolla) og skemmilagt þar með hælana, þá hittum við Ásdísi sem hafði verið á IAESTE fundi. Við fórum með henni og félögum á Tapas Bar. Ágætis bar með voðalega góðum frosnum margarítum og dýrum bjór sökum staðsetningar. Eftir það ætluðum við að trítla yfir á Medborgarplatsen til að fara á einhvern eldhressan stað en enduðum bara hjá vini okkar McDonald sökum langra raða á öllum skemmtistöðunum. Eftir að einhver ægilega hress Íslendingaelskandi Svíi hafði tekið mynd af skónum mínum þá ákváðum við Gummi bara að yfirgefa liðið og taka lestina heim. Við vorum reyndar voðalega ófróð um hvernig næturlestirnar virka þannig að við byrjuðum á að rétt missa af okkar lest og fara svo út á vitlausum stað. Loksins þegar við vorum á réttri leið þá stoppaði lestin voða lengi af því að eitthvað ægilega hresst fólk var að hlaupa yfir teinana og dunda sér við að gera sporið rafmagnslaust???. Þegar löggan var búin að skerast í leikinn þá loksins komumst við heim. Þegar ég vakanaði svo loksins var Ásdís farin aftur á fund og Kiddi lá sofandi í sófanum. Hann býr nebblilega svo sunnarlega í Stokkhólmi að strætóinn hans hættir að ganga um miðnætti þannig að hann fékk bara að krassa hér.
Ég hugsa að aðalafrek mitt í dag muni vera að baka pönnsur, annað ætla ég ekki að hætta mér útí á sunnudegi sem þessum.

Skrifað 3:33 e.h. af Sveinbjörgu

5.11.03

Föndur

Skemmtilegt að segja frá því að í dag þá föndruðum við í skólanum. Við bjuggum til svo ægilega fína ímyndaða bylgjuleiðara úr A4 pappír (ef einhver hefur áhuga á að vita það). Það er samt svo voðalega gaman að vera í fyrirlestrum hér úti með skipulagða og áhugasama kennara. Mér finnst líka voðalega gaman að vera í skóla þar sem er verið að gera spennandi rannsóknir sem skipta einhverju máli í heiminum í dag. Einn kennarinn í læknitækni var t.d. að sýna okkur myndir sem voru fyrstu myndir sinnar tegundar og voru meira að segja teknar á Karolinska Institutinu hér í Stokkhólmi. Eina sem að mér finnst verra við Tekniska Högskolan er að það vantar alla hressu félagana úr VRII :(
Allavegana þá var planið í dag, eins og flesta daga, að læra með þeirri breytingu að við ætlum að þrífa skítuga húsið okkar. Ég er augljóslega orðin skárri af flensuógeðinu mínu fyrst að ég er farin að hafa "áhuga" á að taka til. Við getum nú ekki farið að bjóða heim gestum og átt á hættu að þeir látist af völdum rykeitrunar.

Skrifað 4:17 e.h. af Sveinbjörgu

3.11.03

Leiðindi

Um helgina gerði ég lítið annað en að liggja uppí rúmi og vorkenna sjálfri mér. Ég bara búin að vera með nefrensli og hálsbólgu og almenn leiðindi. Á slíkum stundum er reyndar alltaf voðalega gott að eiga yndælan kærasta sem að dekrar við mann:) Auðvitað varð ekki neitt úr lærdómi þar sem að ég átti mjög erftitt með að einbeita mér að neinu. Í dag er ég meira að segja að skrópa í skólanum, af því að ég ætla ekki að taka sénsinn á að verða meira veik. Reyndar finnst mér voðalega leiðinlegt að missa af fyrirlestrinum sem ég á að vera í en ég þykist bara lesa í staðinn og svo get ég fengið að kópera glósurnar hjá Gummalingnum mínum. Ég þarf reyndar að vera dugleg að læra fyrir næstu helgi af því að þá fáum við gestinn Ásdísi í heimsókn og svo er líka mínípróf í tölvunarfræðikúrskinum í næstu viku. Ég ætla því núna að fara að mennta mig betur.

Skrifað 10:12 f.h. af Sveinbjörgu

1.11.03

Matarboð

Í gærkvöldi var okkur boðið í mat til Reynis frænda, sem er einmitt að læra í KTH líka. Þegar við loksins fundum íbúðina hans beið okkar þessi dýrindis máltíð, indverskur kjúlli með öllu tilheyrandi. Eftir matinn fengum við svo kaffi og með því og Gummi lenti í viskísmökkun. Reynir virðist vera mikill áhugamaður um þennan drykk og hefur meira að segja farið í vínsmökkunarferð til Skotlands. Veisluboðinu lauk svo með ofboðslega góðum ostum og rauðvíni. Við ákváðum svo að fara heim rétt uppúr miðnætti til að ná síðustu lestinni heim, nenntum ekki alveg að taka sjénsin á að þurfa að labba eins og ónefndur björn hefur áður gert. Við komum því heim ofur södd og sæl og mun fróðari um viskíframleiðslu þessa heims.
Í ljósi þess að við erum ekki mjög bókuð á kvöldin hér í Svíþjóð, þá þótti okkur það mjög klassískt að í fyrsta skipti sem að okkur er boðið í mat þá er okkur boðið í mat á tveim stöðum í einu. Foreldra Björns buðu okkur nebblilega út að borða í gærkveldi en því miður þá getum við ekki verið á tveim stöðum í einu:(
Í dag er ég ekki alveg eins sæl, mér er hálf illt í hárinu og svo er ég komin með leiðindakvef :( Þess vegna ætla ég að lummast heima í dag og borða íslenska nammið sem að kom til okkar í gær.

Skrifað 2:06 e.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt