31.10.03

Aulinn ég

Mér er farið að vera töluvert illa við stundatöfluna mína. Vikurnar eru nebblilega ekki allar eins og svo af því að við erum ekki að fylgja neinu prógrammi í skólanum þá eru tímar í mismunandi fögum alltaf að rekast saman hjá okkur. Þetta var einmitt það sem gerðist í dag þannig að ég var búin að komast að því að við gætum mætt í seinni helminginn af dæmatímanum í tölvunarfræði þegar örbylgjuverkfræðifyrirlesturinn væri búinn. Við þustum því í lestina frá KTH niðri í bæ upp í KTH í Kista, og þá var bara enginn tími. Vegna þess að ég er svoltill þulli stundum og kann greinilega ekki muninn á 30. og 31.október þá sátum við í tunnelbananum í örugglega óþarfan klukkutíma til einskis:(

Skrifað 5:32 e.h. af Sveinbjörgu

Fallegt

Nú hef ég loksins látið verða af því að gera þessa síðu fallegri. Það var að sjálfsögðu gert með því að vafra á alheimsnetinu og stela kóða. Ég hef ákveðið að nefna gullfiskinn í horninu eftir fisknum sem ég gaf pabba mínum í afmælisgjöf einu sinni, þannig að hann heitir núna séra Guðmundur. Ég vissi samt aldrei hvað varð um þann fisk.

Skrifað 10:11 f.h. af Sveinbjörgu

30.10.03

Ég hlakka svo til...

ég hlakka alltaf svo til, en risa pakkinn verður bara að bíða og það er alltaf svo lang að líða. Pakkinn sem elskulegar mæður okkar sendu er nú lokaður inni í húsinu hans Björns. Foreldrar hans komu nebblilega með ægilega áhugaverðann og spennandi pakkaling og mig grunar að hann innihaldi allskonar íslenskt góðgæti. Björn fór svo til Uppsala með fólkinu sínu og við verðum bara að bíða fram yfir helgi. Vonandi setti hann samt lifrarpulsuna í ísboxið sitt, það væri nú leiðnlegra ef að hún myndi skemmast. Það er svo einkennilegt hvaða einkennilegu hluta maður byrjar að sakna þegar maður getur ekki fengið þá í útlöndunum sínum. Mér finnst reyndar alltí lagi þó að ég geti ekki fengið kókópuffs, en þar sem Guðmundur er orðinn svo myndarlegur að malla grjónagraut, þá er ég svoltið farin að sakna þess að fá ekki lifrarpulsu með. Það verður því mjög líklega ægilega íslenskuleg matargerð á þessu heimili eftir helgina:)

Skrifað 9:35 e.h. af Sveinbjörgu

28.10.03

Morðtilraun

Í kvöld tókst mér að elda óætan mat. Ég held að hann hafi ekki verið bragðvondur, en ég bara get ekki vitað það og ég held að Gummi viti það ekki heldur. Málið er að ég keypti mér svo fínt chilli krydderi í Baunalandi og bara varð að prófa það í hakk og spagó matinn sem ég vara að búa til. Ég hef víst aldrei notað chilli í neinn mat af viti áður þannig að við hjónaleysin við morðstræti munum ábyggilega ekki finna bragð af neinu út vikuna!

Skrifað 7:42 e.h. af Sveinbjörgu

27.10.03

Utanlandsferð

Þá er maður nú kominn frá útlöndum. Við lögðum af stað á föstudagsmorguninn klukkan 7:15 frá miðjulestastöðinni í Stokkhólmi. Klukkan 13:00 tók Sigga svo á móti okkur á Höfuðbanagarðinum í Köben. Við fórum fyrst með draslið okkar í húsið þeirra og gerðumst svo sannir Svíar og versluðum áfengi í Kaupmannahöfn. Við Sigga þurftum reyndar að gera smádítúr og fara til Grene systra á Fiskitorginu. Það er sennilega skemmtilegasta búð í heiminum og ég skil ekkert í því að Gumma og Stinna finnist leiðinlegt að vera þarna inni. Um kvöldið elduðu gestgjafarnir svo fyrir okkur og Helga Mar dýrindis barbikjúsósu kjúlla með innfluttri barabikjúsósu (frá Íslandi, svona fæst nebblilega hvorki í Danmörku né Svíþjóð), og við Sigga vorum svo ægilega duglegar að klára úr hvítvínsflöskunum okkar.

Þegar við vöknuðum daginn eftur er ekki laust við að Sveinbjörg litla hafi verið þunn. Þá var að sjálfsögðu haldið í túristaferð niður á strik og bragðað á frönskum og jarðaberjamjólkurhræring hjá vini okkar allra Macdonalds. Aðal túristastaður Íslendinga í Kaupmannahöfn virðist vera HM, og við vorum því búin að lofa að fara ekki þanngað þar sem að svoleiðis finnst jú víst á ansi mörgum stöðum í Svíjalandi. Við enduðum nú samt á því að kaupa ægilega fínan jakka á Gumma svo að hann þyrfti ekki að líta út eins og útigangsmaður í Baunalandi. Við fórum nebblilega út að borða um kvöldið með Helga Má, Bergrúnu, Vidda og Söru og við gátum ekki átt áhættu að stráknum væri vísað frávegana klæðaburðar:) Reyndar held ég að veitingastaðurinn sem við fórum á geti ekki fengið margar stjörnur. Við vorum í fyrsta lagi sett við hliðina á eldhúslyftunni, í öðru lagi þá fengum við mjög seint að panta drykki þó að eini þjónni áhæðinni væri alltaf að labba framhjáokkur til að komast í matarlyftuna, í þriðja lagi þá fengu ekki allir rétta drykki og í fjórða lagi þá var held ég næstum því búið að loka elhúsinu loksins þegar við fengum að panta matinn. Maturinn var reyndar mjög ágætur, en þó ekki nógu frábær til að ég muni nokkurn tímann fara þangað aftur. Ég gef því hér með út viðvörun gegn því að fara á Mama Rosa sem er við Strikið í Köben. Eftir þennan frábæra veitingastað þá fórum við, eins og sönnum Íslendingum sæmir, á Hvids vinstue og sötruðum öl.

Við svo drösluðumst seint á lappir á sunnudeginum og trítluðum út í bakarí. Við Gummi vorum svo sem ekki neitt að stressa okkur á því að við ættum ekki miða heim og röltum með Siggu á netkaffihús til að geta pantað okkur miða. Þá komumst við að því að það voru bara lausir miðar í lestina sem átti að fara frá Malmö rétt rúmum klukkutíma síðar. Við þustum því heim til Siggu og náðum í farangurinn og vorum ægilega stressuð áþví að við myndum missa af lestinni. Þegar við komum álestarstöðina hjáSigguogStinnahúsi þávar lestin eitthvað ægilega sein og við orðin ennþástressaðari. Kom svo ekki bara í ljós að við vorum búin að græða klukkutíma af því að tímanum var seinkað um nóttina. Loksins þegar lestin kom vorum við orðin nokkuð vongóð um að náí tíma upp til Malmö, en nei, þá stoppaði andsk... s-lestin einni stöð fráHöfuðbananum af því að það var ekki neitt fjarskiptasamband í lestinni. Á þeim tímapunkti urðum við mjög frústreruð og ákváðum að hoppa út og labba, héldum að það væri stutt eftir. Þegar við vorum rétt komin út af stöðinni og byrjuð að labba í áttina að Höfuðbanagarðinum þá lagði ljóta lestin af stað. Þá hófum við nokkurhundruðmetra hlaup með tösku fulla af víni, bakpoka fullan af víni og risa poka fullan af túristadóti... Við náðum að kaupa miða yfir Eyrarsundið til Malmö þegar 10 mínútur voru í að hún færi, og ákváðum því að tékka á því hvort það væru til miðar alla leið til Stokkhólms. Auðvitað þurftum við að skipta um röð og var sú röð miklu lengri. Tíminn leið og loksins fengum við afgreiðslu. Konan átti bara miða á bissnessklass sem kostuðu 2500 kall fyrir okkur saman og það meira að segja danskar. Við ákváðum því bara að taka sjénsinn að við fengjum miða í Malmö og rétt náðum lestinni þangað. Sem betur fer tókst það, fengum miða á 580 fyrir tvo í lest sem fór 10 mínútum seinna. Við vorum voðalega ánægð að vera ekki föst á Skáni þannig að við voru bara sátt við að vera í 6 tíma í fjölskylduvagni með grenjandi og öskrandi börnum og illa þefjandi börnum.

Við erum sem sagt komin heim og byrjuð á nýrri önn í skólanum. Við erum í kúrsi með eintómum Asíubúum, sem mér skilst að sé mjög slæmt vegna þess að þeir séu svo metnaðarfullir þannig að einnkunnirnar manns verði svo slappar við hliðina á þeirra. Kemur bara í ljós um jólin...

Skrifað 8:19 e.h. af Sveinbjörgu

23.10.03

Próflokagleði

Fyrsta KTH prófið búið. Heilar 5 sænskar einingar vonandi í höfn.´Það er svoltill munur á því að fara í próf hér og heima, ekki vegna þess að prófið var á sænsku, heldur vegna þess að það var 5 tímar!! Annar munur er sá að það var ekki 100 ára gömul kona sem sat yfir prófinu og truflaði alla með því að anda of hátt, heldur sat ungur strákur sem tók sínar skyldur mjög alvarlega. Í kvöld ætti maður nú að fagna af því að við erum búin í prófi og komin í hálfgert frí. Þess í stað ætlum við að þrífa og pakka af því að við ætlum til Köpenhamn í fyrramálið. Hér á bæ er því mikil tilhlökkun þar sem að við fáum að hitta sjaldséða baunabúa. Ég hefði nú samt gert ráð fyrir því að fyrst maður er að fara suður á bóginn þá ætti að hlýna, en nei við munum halda okkur við frostið. Við erum allavegana búin að kaupa sistaminut miða til Malmö og ætlum að vera eins og sannir Svíar og taka lestina yfir sundið og fara á fyllerí:) Vonandi komumst við samt heim aftur....

Skrifað 6:39 e.h. af Sveinbjörgu

22.10.03

Snjór

Vúhú, það er kominn snjór. Það er kannski ekki merkileg frétt nema að því leiti að þegar við trítluðum út í búð núna áðan þá var maður í garðinum okkar að slá grasið. Þetta fannst okkur merkileg sjón alveg þangað til við föttuðum að hann var bara að tæta öll laufblöðin sem eru ennþá að dunda sér við að falla af trjánum. Allavegana þá ætla ég að læra meira, próf á morgun, frí hinn, mikil tilhlökkun :)

Skrifað 12:46 e.h. af Sveinbjörgu

20.10.03

Helgin

Helgin varð ekki eins viðburðalaus og við var að búast. Planið var að sjálfsögðu að læra og læra svo meira, en einhvernveginn þá tekst manni allt of oft að læra ekki eins mikið og planað var. Á laugardaginn fóru Gummi og heimalingarnir okkar á barinn til Lilian að horfa á fótboltann. Þeir komust að því að það væri mun auðveldara að kenna Svartfellingnum (maður frá Svartfjallalandi) íslensku heldur en að þeir þrír lærðu sænsku, þ.a. núna geta þeir búist við heimilislegu íslensku viðmóti þegar þeir fara á barinn. Ég var nú bara húsmóðursleg meðan þeir horfðu á fótboltan og eldaði ofaní þá. Eins og við er að búast á heimili sem þessu þá var restinni af kvöldinu eytt í hálfgerðan nördaskap. Þráðlausainternetdótið reyndist alveg ægilega vel og við hefðum geta komist hjá því að tala saman allt kvöldið vegna hins ágæta alheimsnets.....:)
Á sunnudaginn fengum við, ótrúlegt en satt, heimsókn. Nei það voru ekki Björn og Kiddi, heldur Össi frændi Gumma, Gulla og börnin þeirra. Þau búa í Uppsala og skelltu sér í bæjarferð í gær og kíktu við hjá okkur. Þau hringdu nú á undan sér þ.a. við höfðum smá tíma til að setja í gang herferð gegn mesta ruslinu á heimilinu, svona rétt þannig að það liði ekki yfir þau þegar þau kæmu inn. Við erum ekki búin að vera neitt svakalega dugleg að halda húsinu okkar fínu núna í próflestrarfríinu, við erum nebblilega svo gríðarlega upptekin við að "lesa".........
Þetta var sem sagt hin ágætasta lestrarhelgi með smá tilbrigðum af leti og ágætum heimsóknum.

Skrifað 11:45 f.h. af Sveinbjörgu

17.10.03

Spennandi vika

Nú er sennilega minnst spennandi vika ársins framundan. Ég mun (vonandi) sitja við skólabækurnar fram á fimmtudag og lesa fyrir læknitæknipróf. Hápunktar hvers dags munu væntanlega vera, alveg eins og í VRII, að fá mér hádegismat og kvöldmat. Spennandi líf ekki satt...... Ég er reyndar búin að koma mér í einhverskonar klandur varðandi þetta próf. Málið er að fyrirlestrarnir voru allir á sænsku og bókin líka, en ég bað um að fá próf á ensku til að vera viss um að skilja spurningarnar. Svo kemur á daginn að ég skil ekkert læknitæknispurningar á ensku og í þokkabót þá er þetta ekki sama prófið og allir svíarnir taka og er jafnvel snúnara. Mér finnst nú samt ágætt að maður fái frí í skólanum til að læra fyrir próf, en þurfi ekki að skila 15 verkefnum og gera óendalegt hönnunarverkefni í prófavikunni eins og í ónefndum Háskóla Íslands. Þeir sem eru svo heppnir hér að vera ekki í prófum í október fá þess vegna hálfgert haustfrí eins og nágrannar okkar í Danaveldi. Ég fæ nú reyndar alveg frí föstudaginn í næstu viku þegar prófið er búið, og þá er nú bara spurning um að smella sér til köben...
Nú er hafragrauturinn minn reddí þannig að ég ætla að étann og halda síðan áfram að læra hverning á að bjarga heiminum.

Skrifað 1:04 e.h. af Sveinbjörgu

15.10.03

Skólagjöld

Þá er ég loksins búin að borga skólagjöldin í þessum blessaða skóla. Þetta var reyndar ekki mikill pjéningur, bara 490 krónur sænskar. Reyndar eru þetta ekki eiginleg skólagjöld, heldur gjöld fyrir skólajúníonið og nemendafélagið í minni deild (sem er reyndar frekar dautt). Það er nebblilega skylda að vera í nemendafélaginu í skólanum og ef ég er ekki í félaginu, þá má ég ekki taka próf! Eina sem ég veit til að nemendafélagið í ME deildinni uppí Kista hafi gert er að ganga um skólasvæðið í ægilega ljótum (ljótari en Ohio Batters) búningum og busa nýnemana. Og þar sem að ég er ekki alveg beint nýnemi í þessum skóla þá græddi ég ekki neitt á því:(
Ég ætla þó að líta á björtu hliðarnar á þessu máli frekar, af því að nú má ég fara á onsdagspub á Onsdagspub (það er að segja fara á miðvikudegi á pub sem heitir onsdagspub). Það þarf nebblilega skólaskírteini til að komast þar inn. Við höfum nú reyndar bara einu sinni farið á barinn á miðvikudegi þó að það sé alveg ægilega sænskt, og það var ekki til að hitta Svía heldur Íslendinga sem eru að læra hér í KTH. Við þurfum eiginlega að fara að taka okkur á í sænskum hefðum og drekka meira á miðvikudögum............

Skrifað 6:38 e.h. af Sveinbjörgu

14.10.03

Hættulegt hverfi

Saklausa ég hélt að við byggjum í svo ágætu hverfi, en svo les maður bara um morðtilraunir og vopnuð rán í blöðunum. Ég er allavegana hætt að próminera alein að tilefnislausu hér í hverfinu. Kannski svoltið drastísk viðbrögð:)

Skrifað 10:55 f.h. af Sveinbjörgu

13.10.03

Gestakort

Ég er búin að setja svo ægilega fíneríslegt gestakort hér til hliðar. Það er skylda að merkja sig inná kortið og skrá staðsetningu. Verst að langflestir sem hafa hugsanlega áhuga á að skoða þessa síðu eru á Íslandi og það er hálf prumpulegt ljótt og lítið þarna. Ég vitna því bara í hinn geysivinsæla málshátt, þröngt mega sáttir sitja. Það hefði kannski verið nóg að nota bara Evrópukort af því að þá hefði Ísland kannski verið stærra (ekki fallegra eða réttara), ég þekki nú ekki svo marga sem búa í Asíu, Afríku eða Ástralíu. Það er þá eins gott að þessir fáu Kanar sem maður þekkir merki sig inná kortið.

Skrifað 9:04 e.h. af Sveinbjörgu

Internet best

Loksins er komið alvöru intenet í húsið okkar. Gummi fjárfesti í þráðlausunetdóti þannig að ég þarf ekki að stela nettengingu frá nágrannanum. Ég hef einnig stöðuga og góða tengingu, þ.a. ég get kannski jafnvel verið á MSN stundum. Það er samt ekki mjög praktískt af því að þetta ágæta spjallforrit virðist draga töluvert úr skólabókalestrarhraða. Mér finnst samt mjög gott að vera ekki að stela lengur tengingu frá nágrannanum, var alltaf að bíða eftir að það kæmi einhver brjálaður arabi upp til okkar og skammaði okkur fyrir að stela af nettengingunni hjá sér...(þetta eru ekki fordómar, það búa bara engir svíar í þessu hverfi) Ég var reyndar farin að gruna það að tengingin gæti verið frá skólanum sem er hérna á móti, af því að sendirinn var alltaf í gangi, en það væri nú samt slappt af menntastofnun að hafa opið þráðlaust net. Ég ætti lesa núna en það er bara svo freistandi að nota þessa nýju fínu nettengingu...

Skrifað 5:12 e.h. af Sveinbjörgu

12.10.03

Letihelgi

Nú held ég að mesta letihelgi ársins sé að líða undir lok. Það er erfitt að meta hvort sé meira afrek, það að ég svaf örugglega í 12 tíma báðar næturnar eða að ég borðaði allan afganginn af kókoskökunni sem Gummi bakaði alveg sjálf... ég á bara afmæli einu sinni á ári (±nokkrir dagar). Ég ætla náttúrulega að verða ægilega dugleg að lesa næstu daga þar sem að ég er að fara í próf eftir rúma viku. Reyndar er pervertíski þýski tölvunarfræðikennarinn minn (hann lýsir sér svona sjálfur) að spá í að vera svo góður að hafa próf fyrir okkur í október líka. Það er nú samt merkilega erfitt að lesa í húsinu okkar. Fólkið á hæðinni fyrir ofan á hund sem að geltir eins og vindurinn á öllum tímum og svo virðist það líka ganga í klossum. Held reyndar líka að þau hljóti að vera um 200 kg hvert miðað við hávaðan sem kemur frá þeim þegar þau labba um íbúðina. Til að toppa frábærleika þessara hressu nágranna þá eiga þeir það til að öskra mjög hátt á börnin sín sem grenja eins og sjúkrabílar á meðan. Mér hefur allavegana aldrei verið eins illa við hunda eins og einmitt þessa stundina og er að spá í að styðja að hundahald verði banna í Skarpnäck :(

Skrifað 7:32 e.h. af Sveinbjörgu

10.10.03

Ammæli

Húrra fyrir mér. Mér tókst að eiga afmæli 23. árið í röð. Af því tilefni bakaði Gumminn minn köku fyrir mig (ég veit ekki hvort ég megi segja frá því á alheimsnetinu af því að hann gæti talið að það komi niður á karlmennskuímynd sinni). Kakan heppnaðist ægilega vel og má því segja hann sé með 100% árangur í kökugerð þar sem að þetta var fyrsta kakan sem strákurinn gerir. Kakan hans var líka mun fallegri heldur en súkkulaðikakan sem ég bjó til og eru nú til kökuafgangar sem munu örugglega endast fram að jólum.
Ég er búin að leggja mikinn metnað í það í dag að gera ekki neitt. Hef ekki opnað bók í dag, ekki vaskað upp og ætla sko ekki að elda í kvöld. Hugsa að ég dragi drengina mína með mér á armenísku pizzeríuna hér í sveitinni. Maður má nebblilega gera það sem maður vill þegar maður á afmæli og borða eins mikið af nammi og hægt er. Reyndar get ég ekki notað ±viku regluna, sem snýst um það að maður má alltaf sitja í framsætinu í bíl í vikunni á undan og vikunni á eftir að maður á ammæli, af því að ég hef ekki stigið uppí bíl síðan ég kom til Stokkhólms. Gæti kannski farið í Tunnelbanan og fengið að sitja í stjórnklefanum hjá lestarstjóranum...
Eníveis, þá ætla ég að halda áfram að súpa Chill Out (great with sunset and supper) rauðvínið mitt og nýta mér það að ég á ammæli alveg til 2 í nótt að sænskum tíma.

Skrifað 7:09 e.h. af Sveinbjörgu

8.10.03

Af því að ég á besta blogspot url í heimi og af því að rafmagnið er komið aftur á frystinn í húsinu mínu og af því að mamma mín á ammæli í dag og af því að ég er í útlöndum (nánar tiltekið í Svíþjóð þar sem allt virðist vera að gerast í dag) og af því að lífsgæði eru mest í Svíþjóð og af því að herra Arnold er alveg að verða ríkisstjóri, þá hef ég ákveðið að gera tilraunir til að blogga.
Húrra fyrir því.

Skrifað 9:41 f.h. af Sveinbjörgu

template © elementopia | image © istockphoto
Weblog Commenting by HaloScan.com
Myndir
Bloggiblogg
Snúllur og Dúllur
Póstur
Gestakort og Grín
Gamalt